Norðlenska matborðið birti í gær fyrst afurðasölufyrirtækja verðskrá fyrir sauðfjárafurðir haustið 2008. Samkvæmt þeirri verðskrá eru breytingarnar fólgnar í 15 prósenta hækkun á alla kjötflokka og greiðslur fyrir kjöt til útflutnings hækka um tæp þrjátíu prósent. Í tilkynningu frá Bændasamtökunum segir að bændur hafi beðið óþreyjufullir eftir verðlistum sláturleyfishafa og ljóst sé að rekstrarforsendur margra þeirra séu brostnir með svona lítilli hækkun.
Sauðfjárbændur hafi gert sér vonir um allt að 27 prósent hækkun eins og fram kemur í viðmiðunarverði Landsamtaka sauðfjárbænda. Þá segja Bændasamtökin að bændur þurfi að mæta miklum hækkunum á aðföngum, meðal annars vegna hækkana erlendis til dæmis á áburði, olíu og rúlluplasti. Fimmtán prósenta hækkun mæti aukakostnaði á engan hátt. Á vef Norðlenska segir ljóst að verðhækkunum til framleiðenda verði að koma út í verðlagið en fyrirtækið geti ekki tekið þær allar á sig. Hækkanir verði þó að vera hóflegar því annars sé hætta á að dilkakjötssala minnki enn frekar gert hafi. Þá kemur einnig fram að Norðlenska muni breyta verðskrá sinni til samræmis við verðskrá annarra stórra sláturleyfishafa ef þörf krefji.
Sjá ennfremur í Vikudegi sem kemur út í dag