Samtök atvinnulífsins hafa fulla trú á að ríkisstjórnin muni taka í útrétta sáttahönd atvinnulífsins í þessum efnum.
Á Íslandi er rekinn öflugur, sjálfbær og arðbær sjávarútvegur. Á íslensk útgerðarfyrirtæki er lagt sérstakt gjald, svonefnt veiðigjald, hátt í þrjá milljarða króna á fiskveiðiárinu 2010 - 2011. Víða er sjávarútvegur ríkisstyrktur um háar fjárhæðir. Mikilvægt er að íslenskur sjávarútvegur geti áfram lagt sem mest til samfélagsins og því er nauðsynlegt að rekstrarskilyrði hans verði sem best.
Vilmundur Jósefsson, formaður SA, segir að íslenskur sjávarútvegur sé einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og verði ekki skilinn eftir í óvissu um framtíðina án þess að þjóðin bíði skaða af. Starfandi sjávarútvegsfyrirtæki leiki mikilvægt hlutverk í endurreisn efnahagslífsins ásamt öllum öðrum fyrirtækjum - stórum sem smáum í öllum greinum. Ef ríkisstjórnin velji hins vegar að ræða ekki um málefni sjávarútvegsins eins og annarra atvinnugreina leggi hún upp í ferðalag með þrjú hjól undir bílnum og lendi fljótlega í ógöngum.
Sátt um málefni sjávarútvegsins mun liðka fyrir gerð kjarasamninga til þriggja ára en innan SA er full samstaða um að skilja sjávarútveginn ekki eftir í óvissu.
Samtök atvinnulífsins telja tímabært að hefja nýja atvinnusókn og binda enda á það neyðarástand sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Um 15 þúsund manns eru án vinnu, atvinnuleysið hefur bitnað á þriðja hverju heimili frá hruni, langtímaatvinnuleysi hefur fjórfaldast og þúsundir hafa flúið land, segir í fréttatilkynningu.