Sanngjarn sigur Þórs/KA gegn Fylki

Þór/KA er komið upp í fjórða sæti Pepsi-deildar kvenna eftir verðskuldaðan 3:1 sigur gegn Fylki á Þórsvelli í kvöld. Þór/KA var alltaf skrefinu framar í leiknum en Fylkisstúlkur sýndu þó klærnar á köflum og með smá heppni hefðu þær getað fengið eitthvað úr leiknum. Rakel Hönnudóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir og Manya Makoski skoruðu mörk heimamanna í kvöld en mark Fylkis gerði Anna Björg Björnsdóttir. Þór/KA byrjaði leikinn betur og voru mun beittari fram á við, en vantaði oft herlsumuninn á að koma sér í gott færi.

Fyrsta markið lét þó ekki bíða eftir sér lengi. Á 13. mínútu var brotið á Mateju Zver utan teigs vinstra megin. Zver tók spyrnuna sjálf og gott skot hennar var varið í slána af Björk Björnsdóttur í marki Fylkis, en hún náði ekki að halda boltanum sem datt fyrir fætur Rakelar Hönnudóttur sem gat lítið annað en skorað. Staðan 1:0 og forystan verðskulduð.

Fylkisstúlkur hresstust heldur eftir markið og sóttu í sig veðrið og sköpuðu sér ágætisfæri sem þeim tókst ekki að nýta.Manya Makoski fékk svo dauðafæri fyrir Þór/KA á 38. mínútu er hún slapp í gegnum vörn gestanna, en Björk Björnsdóttir í marki Fylkis kom vel út úr markinu og sá við henni. 

Þór/KA náði svo öðru marki á besta tíma. Rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks átti Mateja Zver frábæra sendingu inn á hinu eldfljótu Manyu Makoski sem var kominn ein í gegn og brást ekki bogalistinn að þessu sinni og afgreiddi boltann örugglega framhjá Björk í markinu.

Staðan í hálfleik 2:0.

Fylkir fékk óska byrjun í seinni hálfleik. Anna Björg Björnsdóttir fékk boltann vinstra megin rétt innan vítateigs og skoraði með góðu skoti í bláhornið hægra megin. Staðan 2:1.Eftir um hálftíma leik sýndi Anna Björg flotta takta, er hún hreinlega fíflaði varnarmenn Þórs/KA upp úr skónum og sendi boltann fyrir markið á Rut Þórðar Þórðardóttir, sem fór illa með dauðafæri og skaut hátt fyrir markið. 

Fimm mínútum síðar kom hins vegar þriðja mark Þórs/KA í leiknum og það skoraði Arna Sif Ásgrímsdóttir. Eftir hornspyrnu datt boltinn fyrir fætur Örnu í teignum sem lét vaða með tánni á markið og boltinn söng í netinu. Staðan 3:1.

Leikurinn var nokkuð jafn næstu mínútur en Þór/KA ívið sterkari. Anna Björg Björnsdóttir var nálægt því að koma Fylkisstúlkum aftur inn í leikinn þegar korter lifði leiks. Anna tók þá góðan sprett upp kantinn en skot hennar úr þröngu færi fór beint á Berglindi Magnúsdóttur í marki heimamanna.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 3:1, sanngjarn sigur Þórs/KA.

Þegar öll liðin í deildinni hafa spilað þrjá leiki er ÍBV á toppnum með 9 stig og markatöluna 12:0. Hreint mögnuð byrjun á mótinu hjá Eyjastúlkum. Valur hefur sjö stig í öðru sæti, KR og Stjarnan og Þór/KA komu í næstu sætum með sex stig.

Nýjast