Samtök atvinnulífsins svara Einingu-Iðju fullum hálsi
Samtök atvinnulífsins sendu síðdegis frá þér tilkynningu, þar sem samtökin svara samninganefnd Einingar Iðju, sem segir að auglýsing SA um launa- og verðlagsþróun sé ósmekkleg og hrokafull.
Samninganefnd Einingar-Iðju sakar Samtök atvinnulífsins í vikunni um skrumskælingu á sannleikanum í auglýsingu þar sem settar eru fram staðreyndir sem byggðar eru á opinberum gögnum um launa- og verðlagsþróun hér á landi og á Norðurlöndunum. Þar er einnig sett fram á myndrænan hátt greining Seðlabanka Íslands á því hver þróunin gæti orðið hér á landi ef árlegar launahækkanir væru minni en hingað til hefur verið raunin. Verðbólga yrði mun minni, hagvöxtur mun meiri, störfum myndi fjölga umtalsvert og kaupmáttur heimila aukast þegar til lengri tíma er litið. Í stuttu máli gæti þróun efnahagsmála hér á landi orðið með svipuðum hætti og á Norðurlöndum undanfarna áratugi, segir í tilkynningu Samtaka atvinnulífsins. Ætlast verði til þess að samninganefnd Einingar-Iðju beri meiri virðingu fyrir staðreyndum en komi fram í yfirlýsingu hennar. Þar sé rangt farið með.
Samninganefndin segir að SA kenni launahækkunum hjá almennu launafólki um verðbólguna og ekki sé tekið mið af launaskriði í framsetningu SA. Þetta er rangt, því í umfjöllun SA er ekki einungis verið að fjalla um hækkanir sem verða í kjarasamningum heldur launamyndun í heild, þ.m.t.launaskrið sem verður til í persónulegum samningum launafólks og vinnuveitenda þeirra. Í engu er verið að varpa ábyrgð á ákveðinn hóp fólks. Margir bera ábyrgð og eru hvorki atvinnurekendur, ríki né sveitarfélög þar undanskilin. Gagnrýnin beinist að því ástandi sem við höfum búið við á Íslandi og bent á leiðir til úrbóta.
Í ályktun samninganefndarinnar segir að SA minnist ekki á hækkanir á vöruverði eða gjaldskrám á opinberri þjónustu. Það er líka rangt því í lok auglýsingar SA er hvatt til þess að ráðist verði í samstillt átak til þess að vinna bug á verðbólgunni og halda aftur af verðhækkunum. Það er forsenda þess að kaupmáttur aukist og lífskjör batni. Samtök atvinnulífsins mótmæltu til að mynda harðlega áformuðum gjaldskrárhækkunum Reykjavíkurborgar sem dregnar voru til baka og ber að þakka Reykjavíkurborg fyrir það frumkvæði sem hún sýndi í þeim efnum. Það er hins vegar einungis fyrsta skrefið á þeirri löngu vegferð að koma á varanlegum verðstöðugleika.
Að lokum segir samninganefnd Einingar-Iðju SA vera í kjarasamningaviðræðum í auglýsingatímum fjölmiðla. Það er af og frá. Í auglýsingu SA eru einfaldlega settar fram staðreyndir og sjónarmið sem mikilvægt er að koma á framfæri við fólk sem getur svo tekið afstöðu til þeirra og svarað í kjölfarið hvaða leið það vill fara, segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.