Samstaða og kraftur meðal félagsmanna

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag.

Nú stendur yfir í Hofi á Akureyri fundur hjá Einingu-Iðju þar sem rúmlega 100 félagsmenn fara yfir ýmis mál varðandi kjaraviðræður sem framundan eru. Um er að ræða sjöunda fundinn sem félagið hefur staðið fyrir á öllu félagssvæðinu í vikunni. Þetta kemur fram á heimasíðu Einingar-Iðju. Þessir fundir eru m.a. tækifæri fyrir alla félagsmenn til að koma fram með hugmyndir að launakröfum félagsins í kröfugerð sem send verður til samninganefndar Starfsgreinafélagsins í næstu viku.

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins og SGS, segist vera mjög ánægður með þá mætingu sem félagið hefur fengið á fundina. „Við sem erum í forystu verkalýðshreyfingarinnar höfum að sjálfsögðu sjónarmið félagsmanna alltaf að leiðarljósi í kjaraviðræðunum. Þess vegna boðaði Eining-Iðja til þessara sjö funda í vikunni til að baklandið, það er okkar félagsmenn, kæmu fram með sín sjónarmið. Við höfum fengið mjög góða mætingu á fundina sem hafa einkennst af mikilli samstöðu og krafti. Í könnum sem gerð var fyrir okkur nýlega kom í ljós að 65 % félagsmanna Einingar-Iðju styðja hugsanlegar verkfallaaðgerðir, þurfi á annað borð að grípa til þess ráðs. Miðað við þessa fundi okkar þá er sú tala einungis orðin mun hærri. Þetta veitir manni aukinn kraft til að fara í þá vinnu sem framundan er því samstaða er númer eitt, tvö og þrjú. Formaður stéttarfélags sem hefur ekki nógu sterkt bakland, er einskis virði í slíkum viðræðum,“ segir Björn Snæbjörnsson.

Nýjast