„Sæfari er hluti af innanlandskerfi okkar og hefur reksturinn gengið mjög vel alveg frá því að við tókum við þessum siglingum," segir Kristján Ólafsson, forstöðumaður skipareksturs Samskipa. Öll aðstaða til farþegaflutninga er mun betri í nýju ferjunni. Siglt er þrisvar í viku á milli Dalvíkur og Grímseyjar; á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, en tvisvar í viku á milli Dalvíkur og Hríseyjar; á þriðjudögum og fimmtudögum. Skipstjóri á Sæfara er Sigurjón Herbertsson.
Nokkur aukning hefur verið milli ára í farþegaflutningum með Sæfara, fyrst og fremst yfir sumartímann. „Aukningin milli áranna 2007 og 2008 var t.d. allt að 40% og munar þar sérstaklega um fjölgun farþega til og frá Grímsey, m.a. vegna markvissrar vinnu Grímseyjarhrepps í móttöku ferðamanna," segir Kristján. Grímseyjarferjan Sæfari er um 40 metra löng og 10 metra breið, smíðuð árið 1992, en keypt hingað til lands í desember 2005. Voru umtalsverðar endurbætur gerðar á skipinu hérlendis, áður en það var tekið í gagnið í apríl 2008, segir í fréttatilkynningu.