Magnús Garðarsson, eftirlitsmaður nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ, segir að verið sé að skoða mál er varðar byggingu menningarhússins Hofs í kjölfar þess að viðunandi tilboð hafa ekki fengist í tréverk og múrverk í húsinu þrátt fyrir tvö útboð. „Við erum að skoða málin og munum kalla menn til viðræðna og þreifa á því hvort samningar náist ekki," segir Magnús.
Magnús segir ljóst að tilboðunum í múrverkið verði hafnað. „Það er búið að gefa mönnum kost á að bjóða í múrverkið í tvígang og nú þurfum við að ræða við menn í þeirri grein. Við höfum jafnvel heyrt í mönnum sem voru að skoða það að bjóða í múrverkið en urðu of seinir, héldu að það væri vika eftir af útboðsfrestinum þegar hann rann út. Eins er með tréverkið, við munum þreifa á mönnum og reyna að finna einhvern grundvöll til samninga," sagði Magnús.