Samkeppnin UNGSKÁLD hafin

Hafin er samkeppnin UNGSKÁLD en þar eru ungskáld á aldrinum 16-25 ára á Akureyri, Húsavík og í nágrenni hvött til þátttöku með besta textann sem má vera ljóð, saga, leikrit o.s.frv. Þátttakendur skila verkinu í netfangið ungskald@akureyri.is ásamt upplýsingum um höfundinn. Veitt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin, 50 þúsund fyrir 1. sæti, 30 þúsund fyrir 2. sæti og 20 þúsund fyrir þriðja sæti en einnig verða veitt bókaverðlaun. Síðasti skiladagur verkanna er miðvikudagurinn 11. nóvember. 

„Það er von þeirra sem umsjón hafa með verkefninu að samkeppnin hvetji ungt fólk til að stunda ritlist og vera ófeimin við að draga eigin texta fram í dagsljósið.  Eitt af því sem gert hefur verið til að efla ungviðið á þessum vettvangi var dagsnámskeið sem haldið var fyrir skömmu en þar talaði rithöfundurinn Andri Snær Magnason um skapandi hugsun og skapandi skrif. Námskeiðið var vel sótt en hátt í þrjátíu tóku þátt,“ segir í fréttatilkynningu.

Umsjón með verkefninu hafa Húsið Ungmenna-og upplýsingamiðstöð, Amtsbókasafnið, Akureyrarstofa, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri í góðri samvinnu við Háskólann á Akureyri, Framhaldsskólann á Húsavík, Minjasafnið á Akureyri og Menningarfélagið Hraun í Öxnadal. Það er Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra sem styrkir verkefnið.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir undirbúningshópurinn í netfanginu ungskald@akureyri.is

 

Nýjast