Samið við SS Byggi um loka- framkvæmdir við Giljaskóla

Tilboð í lúkningu framkvæmda við Íþróttamiðstöðina við Giljaskóla voru opnuð í byrjun október. Eftir yfirferð var tilboð frá SS Byggi metið hagstæðast, þegar tekið hafði verið tillit til þeirra liða í tilboði sem ekki koma til greiðslu og eru ekki hluti af verksamningi, þ.e.a.s. áætlaðrar tímavinnu við framkvæmdina.  

Röðun breyttist þannig að tilboð frá SS Byggi var um 77% af kostnaðaráætlun og tilboð frá lægstbjóðanda, Eykt ehf., við opnun var um 79,7%. Í framhaldi af því var ákveðið að ganga til samninga við SS Byggi og eru framkvæmdir þegar hafnar. Samningsupphæð er um 251 milljón króna, sem er rúmlega 100 milljónum króna lægri upphæð en kostnaðaráætlun hönnuða, sem var um 355 milljónir króna. Alls bárust 14 tilboð frá 12 aðilum og voru þau öll undir kostnaðaráætlun hönnuða. Verkið felur í sér fullnaðarfrágang á byggingunni, innan sem utan, og frágang á lóð.

Áður hafði verið gengið frá  samningi um tæki og búnað í fimleiksalinn við Sportís ehf. Stefnt er að því að taka íþróttamiðstöðina í notkun við upphaf skólaárs 2010.

Nýjast