Samið um smíði líkans af Sólbak EA 5 fyrsta skuttogara ÚA

Kampakátir i kuldanum eftir undirritun Sigfús Ólafur Helgason og Elvar Þór Antonsson.  Myndir:  KEP …
Kampakátir i kuldanum eftir undirritun Sigfús Ólafur Helgason og Elvar Þór Antonsson. Myndir: KEP og Dagur

Á hádegi i dag var skrifað undir samning um smiði líkans af Sólbaki EA  5 en það nafn bar fyrsti skuttogari Útgerðarfélag Akureyringa.  Sólbakur kom til nýrrar heimahafnar fyrir 52 árum upp á dag  og því vel við hæfi að undirrita samning um smíði líkansins á þessum degi.  Þegar  Sólbakur  EA 5 lagðist að bryggju  hér fyrir þessum 52 árum viðraði eiginlega með sama hætti  og í dag.  Það var  ansi kalt á Togarabryggju á athafnarsvæði ÚA fyrir 52 árum  en stillt veður og mikil eftirvænting í fólki sem fjölmennti á bryggjuna til þess að fagna þessu nýja glæsilega fiskiskipi.   

 Frá heimkomu Sólbaks EA 5 fyrir réttum 52 árum upp á dag

Eins var í dag kalt, still veður  en þó ekki væri eins margt um manninn mátti glöggt sjá að þeir sem mættu voru spenntir fyrir því sem í vændum var.

Það er sem fyrr þegar kemur að því að smíða líkön af  togurum sem skipt hafa  máli i sögu bæjarins Sigfús Ólafur Helgason fyrrum sjómaður á togurum  ÚA sem hefur forgöngu í málinu  og  smiðurinn verður auðvitað sá sami og áður Elvar Þór Antonsson en hann smíðaði ,,Stellurnar" og nú nýverið lauk hann við að smiða Harðbak/Kaldbak.   Að undirskrift  lokinni var svo boðið upp á heitt gott kaffi og kleinur  um borð í Húna 

  Frá undirritun  á Togarabryggju í dag

Hér fyrir neðan er svo að finna ræðu sem Sigfús Ólafur  flutti við þetta tilefni í dag.:

Ágætu sjómenn.

Þriðjudaginn 8. febrúar árið 1972, fyrir nákvæmlega  52 árum lagðist hér að togarabryggjunni skuttogari sem Útgerðarfélag Akureyringa hafði fest kaup á í Frakklandi. Skip þetta var tímamótaskip því með komu Sólbaks EA 5 hófst endurnýjum skipaflota ÚA og skuttogarvæðing félagsins hófst.

Sólbakur var þriðji skuttogari sem Íslendingar eignuðust og  var sá stærsti 491 tonn að stærð sem hingað til hafði komið til landsins.

Sólbakur EA 5 reyndist ÚA vel og saga hans er sveipur ákveðnum dýrðaljóma nú þegar við horfum til baka. Sumir segja að Sólbakur hafi verið fallegur skuttogari og með sanni má taka undir það,   og aðallega var þó öll vinnuaðstaða áhafnarinnar meiri og miklu betri en á gömlu síðutogurunum, um það má klárlega tal um byltingu.

Á einungis þremur árum 1972 til 1975 var togarafloti ÚA allur endurnýjaður og fimm glæsilegir skuttogarar voru gerðir út undir merkjum félagsins. Segja má og það alveg kynnroðalaust að á áttunda og nýjunda  áratug síðustu aldar hafi verið mikið blómaskeið í útgerðarsögu og fiskvinnslusögu ÚA og sá glæsilegi skipafloti félagsins sem og öflug fiskvinnsla hafi verið burðarstoðin undir óskabarn Akureyrar eins og ÚA var í almennu tali nefnt.

Skipin öll Sólbakur, Kaldbakur, Svalbakur,  Harðbakur og Sléttbakur fiskuðu vel og mikil gæfa var að á skipin alla tíð völdist einstaklega öfluga og samheldnar áhafnir,  og þegar allt þetta er nefnd, öflug stjórnum fyrirtækisins undir forustu þeirra Gísla Konráðssonar og Vilhelms Þorsteinssonar, stór og vel búin skip og úrvals áhafnir þá var áran yfir útgerðarfélagi Akureyringa bæði falleg og  góð og umtöluð um allt land. Það var bæði gott og eftirsóknarvert að vera skipverji á ÚA togara.

Enn engin stöðvar tímans þunga nið eins og skáldið kvað og eftir áratuga dygga þjónustu við byggðarlagið okkar Akureyri hurfu skipin sem hér um ræðir eitt og eitt úr rekstri og ný tóku við og í dag er enn öflug útgerð rekin hjá Útgerðarfélagi Akureyringa /Samherja sem sannarlega heldur merkjum ÚA á lofti og við Akureyringar erum stolt af.

Enn skipin okkar gömlu, skuttogararnir okkar fyrstu 5 sem svo lengi voru okkar fyrrum sjómanna ÚA annað heimili gleymdust ekki.

Á vordögum í fyrra fæddist draumur meðal okkar fyrrum sjómanna ÚA að gaman væri að láta smíða fyrir okkur líkan af Stellunum svokölluðu, enda samdóma álit okkar að Stellurnar hafi verið einhverjir fallegustu skuttogarar okkar Íslendinga.

Framhaldið vitum við.  Stórglæsilegt líka af Stellunum,  Svalbak EA 302 og Sléttbak EA 304 var afhúpað þann 1. nóvember s.l. á glæsilegri afmælishátíð í húsakynnum ÚA þegar nákvæmlega 50. ár voru liðin síðan þeir Svalbakur og Sléttbakur komu til landsins.

Svo þegar það raungerðist að svo mikil samstaða var með fyrrum sjómönnum ÚA að láta smíða Stellurnar kviknaði sú hugmynd að láta líka smíða Spánverjana og það varð úr og nú eru Spánverjarnir okkar Kaldbakur EA 301 og Harðbakur EA 303 klárir.

Í raun og sann var það mér er hér stendur eiginlega undravert hvað þetta gekk allt vel og er ég stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna að þessu verki og dásamlegt að finna þann mikla velvilja og samhug  sjómanna ásamt nokkrum stéttarfélögum félögum og svo Samherja og ÚA ásamt KEA sem studdu verkefnið er raun ber vitni.

Enn sannarlega var og átti þetta að vera lokaverkefnið, að eiga fjóra fyrrum ÚA togara í tveimur stórkostlegum líkönum eftir Elvar Þór Antonsson var og við sjómenn ÚA höfðum með þessu framtaki okkar framkallað svo merka minningu um veröld sem var og er okkur öllum svo kær.

Enn þá kom upp ein áleitin vangavelta.

Af hverju að skilja þann fyrsta eftir? Mig minnir að það hafi verið Gunnar Jónsson „Gunni Topper“ sem lét það út úr sér fyrstur að „Næst er það Sólbakur EA 5  !!!! Úr því að við erum búnir með 4 togara af hverju ekki að smíða þann fyrsta líka.

Munið hvað ég sagði hér fyrr,  Hann Sólbakur EA 5 ruddi skuttogarbrautina.

Og í ljósi þess frábæra verkefnis og árangurs er við vorum búnir að ná með Stellurnar og Spánverjana þá létum við reyna á það hvort það væri gerlegt að smíða líka líkan af Sólbak EA 5 og safna því sem þarf til að geta fjármagnað verkið.

Kæru félagar.

Við erum komnir á þann stað að Sólbakur EA 5 verður smíðaður og  fjármögnun verkefnisins hefur verið eiginlega lygasögu líkast, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að um það skip eru miklu færri sjómenn tengdir heldur en hinum fjórum.

Staðan er þannig nú að við erum komnir með um það bil 78 % af því sem við þurfum til að fullfjármagna verkefnið og  því erum við hér í dag nákvæmlega 52 árum eftir að Sólbakur kom hingað upp að þessari bryggju og ætlum að skrifa formlega undir samning við snillinginn okkar Elvar Þór Antonsson um smíð líkansins af Sólbak EA 5.

Kæru vinir.

Þann 19 desember næstkomandi verða nákvæmlega 50 ár liðin síðan Kaldbalur EA 301 lagðist hér upp að þessari sömu bryggju og við ætlum daginn þann að blása til annarar afmælisveislu, í anda Stelluhátíðarinnar og afhjúpa ekki bara líkanið af Spánverjunum Kaldbak EA 301 og Harðbak EA 303 heldur ætlum við að sýna líkanið af Sólbak EA 5 í fyrsta sinn sem við nú staðfestum með undirskrift að við ætlum að eignast.

Þann 8. febrúar fyrir nákvæmlega 52. árum var kalt hér á Akureyri. Samkvæmt veðurlýsingu þess dags var 6. stiga frost andaði aðeins að sunnan og sól skein í heiði.

Það er í dag sól í heiði í hugum okkar fyrrum sjómanna á Sólbak EA 5 þegar við göngum nú til þess verks, verks  er kannski engin  átti von á að myndi verða að veruleika.

Við fyrrum sjómenn ÚA sýndum það í denn og sýnum það í dag að með samtakamætti eru okkur ansi margir vegir færir. Vil ég því biðja Elvar Þór Antonsson að koma hingað til mín og ganga til undirritunar á þriðja byggingarsamningi okkar vegna ÚA togara.

Að lokum.

Það er enn möguleiki að styðja verkefnið fjárhafslega  og við þurfum að klára það.

 


Athugasemdir

Nýjast