Fyrirtækið var stofnað árið 2003, en hóf framleiðslu á Húsavík tveimur árum síðar. Nú hefur Samherji keypt fyrirtækið, en Fjörfiskur hefur keypt hráefni af Samherja í gegnum tíðina auk þess sem Smaherji hefur selt afurðir fyrirtækisins. Gestur Gestsson, framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Samherja, segir á vef RÚV, fyrirtækið aðallega hafa sérhæft sig í því að reykja ýsu og selt á Bretlandsmarkaði. Þar sé Samherji stór fyrir og því sé samlegð í rekstrinum. Gestur segir að vöruúrvalið sé styrkt og hægt sé að selja vörur Samherja með vörum Fjörfisks. Kaupverðið fæst ekki uppgefið, en Gestur segir Samherja sjá mikla möguleika í framleiðslu fyrirtækisins, og stefnt sé að því að auka umsvif þess til muna. Efla eigi starfsemina og þegar sé byrjað að leita nýrra markaða.