Samgöngustefna fyrir Eyþing

Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti Friðbertsson.

Í næstu viku, n.t.t. þann 23. september, er liðin aldarfjórðungur síðan lokið var við að leggja samfellt slitlag á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Athöfn fór fram við Sesselíubúð á Öxnadalsheiði þar sem þáverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal opnaði veginn með formlegum hætti. Í tilefni dagsins var afhjúpaður skjöldur sem Vegagerðin hafði látið gera. Það voru svo sannarlega stór tímamót.

Um 1980 hafði einungis 10% leiðarinnar verið lagður slitlagi en á rúmum áratugi tókst að klára verkið. Áður fyrr tók ferðalagið á þessari leið oft átta til níu klukkustundir og ekki óalgengt að skipta þyrfti um hjólbarða á miðri leið.

Það getur oft verið gagnlegt að líta yfir farinn veg varðandi uppbyggingu samgöngumannvirkja á undanförnum misserum, árum og áratugum. Vaðlaheiðargöng voru vígð í byrjun árs,  lagt var bundið slitlag á Kísilveginn á milli Mývatnssveitar og Húsavíkur í fyrra og  í sumar hófust framkvæmdir við síðasta áfangann við Dettifossveg og þar með verður komið bundið slitlag á allan ,,Demantshringinn“ þegar þeim framkvæmdum verður lokið.

Framkvæmdir við endurbætur á veginum um Langanesströndina hófust einnig í sumar. Í framhaldi af því verður farið í leggja nýjan veg um Brekknaheiði og þar með verður ytri hringvegurinn um norðausturhornið einnig allur með bundnu slitlagi.

Horft til framtíðar

Þetta eru mikilvæg framfararskref í samgöngumálum á Norðurlandi sem ötullega hefur verið barist fyrir á ýmsum vettvangi að undanförnum árum. Það er því mikilvægt nú, þegar sér fyrir endann á mikilvægum áföngum, að sveitarfélögin á Eyþingssvæðinu hefji markvissa vinnu við að skapa framtíðarsýn um það hvert skal halda í frekari uppbyggingu samgöngukerfisins.

Góðar og öflugar samgöngur eru ein helsta forsenda fyrir öflugri byggð þegar horft er til framtíðar. Nú þegar ferðaþjónustan er orðin að mikilvægri stoð íslensks efnahagslífs verða góðar vegsamgöngur sífellt mikilvægari.

Stytting Þjóðvegar 1

Þrír kostir eru  helstir í styttingu þjóðvegsins milli Reykjavíkur og Eyjafjarðar. Mesta vegstyttingin fengist með lagningu ,,Húnavallabrautar“ , sá vegur væri um 17 km að lengd og myndi stytta leiðina um 14 km. Hinir tveir kostirnir eru annars vegar lagning Sundabrautar sem myndi stytta leiðina um 6 km og aðrir 6 km í styttingu yrðu um svokallaða ,,Vindheimaleið“ í Skagafirði. Með þessum hætti mætti stytta vegalengdina á milli Eyjafjarðar og Reykjavíkur um 26 km. Þessar styttingar gagnast öllum landsmönnum og eru mikilvæg framfararskref í atvinnu- og efnahagslegu tilliti enda er „Húnavallabraut“ ein af arðsömustu vegaframkvæmdum sem hægt er að fara í á Íslandi í dag og talin borga sig upp á fáum árum að mati Vegagerðarinnar.

Jarðgangaáætlun Tröllaskaga

Brýnar hugmyndir hafa komið fram um jarðgöng til að bæta samgöngur um Tröllaskagann, þar má nefna eftirfarandi gangnahugmyndir:

  • Tröllaskagagöng. Helst hefur verið rætt um tvö valkosti varðandi Tröllaskagagöng. Annarsvegar jarðganga sem tengdu saman Barkárdal sem gengur til norðvesturs úr Hörgárdal og Hofsdal sem liggur til suðausturs úr Hjaltadal og hinsvegar kost sem stæði saman af tveimur jarðgöngum annars vegar úr Hörgárdal yfir í Skíðadal og þaðan áfram yfir í Kolbeinsdal. Göngin um Barkárdal og Hofsdal  yrðu nokkuð löng göng eða um 20 km.  Yrði því um heilmikla framkvæmd að ræða. Í  því samhengi er rétt að benda á að í nýrri skýrslu sem fjallar um gangnagerð á Austurlandi kemur fram að áætlaður kostnaður vegna Fjarðarheiðargangna sem tengja saman Seyðisfjörð og Hérað sé um 35 milljarðar. Áætluð lengd þeirra ganga er 13,4 km. Rétt er að geta þess að fleiri útfærslur hafa komið fram í þessu samhengi.
  • Siglufjarðargöng. Á undanförnum árum hafa verið lagðar fram tvær útfærslur af því að tengja Siglufjörð við Fljótin með jarðgöngum. Þannig myndi leiðin  frá Ketilási í Fljótum til Siglufjarðar styttast um 15 km og  Almenningar yrðu úr alfaraleið.
  • Dalvík – Ólafsfjörður. Ný göng á milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar í stað Múlaganga er framtíðarverkefni sem nauðsynlegt er að horfa til. Það má segja að Múlagöng séu barn síns tíma þó þau hafi ekki verið nema þrjá áratugi í notkun.
  • Jarðgöng undir Öxnadalsheiði. Hér hefur helst verið litið til tveggja jarðgangakosta annars vegar tæplega 11 km langra ganga sem næðu undir alla heiðina, úr botni Norðurárdals að Bakkaseli og hins vegar kosts sem væri umtalsvert styttri eða frá Bakkaselsbrekkunni og undir háheiðina tæplega fjögra km löng göng.

Sjálfsagt leynast víðar kostir sem vert er að skoða og mikilvægt að sveitarstjórnarmenn á Eyþingssvæðinu  móti sér sameiginlega sýn og framtíðarstefnu í samgöngumálum, heildinni til heilla.

-Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður

 


Athugasemdir

Nýjast