Samgönguráðherra líst vel á Kjalveg

Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra líst vel á hugmyndina um lagningu vegar yfir Kjöl, svo framarlega sem hún gengur upp umhverfislega. "Það að stytta að leiðina milli þessara landshluta er jákvætt og Kjalvegur er góður kostur sem einkaframkvæmd að mínu mati," sagði Sturla í samtali við Vikudag nú í hádeginu. Samgönguráðherra sagði nauðsynlegt að ná samkomulagi og sátt vegna umhverfismálanna. Næsta verkefni væri að fara ræða þau mál. "Ég er alveg sérstaklega ánægður með þessir aðilar skuli skoða þetta sem einkaframkvæmd, vegna þess að þörfin fyrir fjármuni ríkisins til skemmri og lengri tíma er svo mikil við uppbyggingu vegakerfisins. Það að vegurinn milli Reykjavíkur og Akureyrar þoli ekki leyfilegan öxulþunga allan ársins hring er auðvitað óásættanlegt. Við getum því ekki látið fjármuni í hálendisveg á meðan þetta ástand varir."

Sturla flutti ávarp við setningu ráðstefnu um sjálfbærar samgöngur, sem haldin er í Ketilhúsinu á Akureyri, á vegum Norðurlandsdeilda Verkfræðinga-, Tæknifræðinga- og Arkitektafélags Íslands. Ráðstefnan hófst kl. 10 í morgun og stendur fram eftir degi. Samgönguráðherra vinnur að því að fá samþykkta nýja 12 ára samgönguáætlun, sem lögð verður fram á Alþingi í næstu viku. Hann vildi því ekki fara út í efni hennar en sagði m.a. í ávarpi sínu að helstu markmið áætlunarinnar, lúti að greiðari samgöngum, hagkvæmari uppbyggingu og rekstri, umhverfislega sjálfbærum samgöngum, öryggi og jákvæðri byggðaþróun.

Nýjast