Samstarfssamningur á milli Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítalans um styrkingu þjónustu við börn og unglinga með geðrænan vanda og fjölskyldur þeirra á Norðurlandi var undirritaður í gær. Samningurinn felur í sér að fjölfaglegt barna- og unglingageðteymi á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og fjölfaglegt teymi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) munu vinna náið saman við greiningu og meðferð barna og unglinga sem þurfa á þjónustu að halda á þessu sviði.
Samningurinn felur í sér að barna- og unglingageðlæknir frá BUGL, ásamt öðrum starfsmanni úr fagteyminu, munu koma reglubundið norður til starfa tvo daga í senn en fagteymi Sjúkrahússins á Akureyri mun annast daglega meðferð og eftirlit með skjólstæðingum sínum. Sérfræðiteymið frá BUGL mun veita barna- og unglingageðteymi SAk sértækan stuðning varðandi greiningar og meðferð skjólstæðinga SAk. Í því felst ráðgjöf og viðtöl við skjólstæðinga teymisins auk fræðslu, samráðs við þróun þjónustunnar og einstök fyrirliggjandi verkefni. Meðlimum barna- og unglingateymis SAk býðst ennfremur að koma á BUGL til kynningar og þjálfunar.