Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) hefur í samráði við sóttvarnarlækni tekið þátt í undirbúningi um viðbrögð við kórónaveirunni, Covid 19, sem nú dreifir sér hratt um gervallan heim og er vinnu sjúkrahússins hagað samkvæmt viðbragðsáætlunum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Sýkingavarnarnefndin leiðir þá vinnu.
Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga við SAk, segir að stjórnendur sjúkrahússins fundi vikulega með sóttvarnarlækni ríkisins. Þá séu Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands eystra (HSN) í góðu samstarfi er varðar viðbragðsætlun og hafa stjórnendur SAk fundað vikulega með yfirmönnum HSN ásamt sóttvarnarlækni Norðurlands.
„Við höfum farið rækilega yfir birgðasafn á lyfjum hér sjúkrahúsinu til að vera undirbúin. Þá er sérstakur sýkingarhjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu að ganga á milli deilda og fræða starfsmenn og halda þeim upplýstum. Við fylgjumst náið með og erum í viðbragðsstöðu,“ segir Sigurður.
Sigurður vill ítreka það ef einstaklingar finna fyrir veikindum að hringja í síma 1700 varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið í stað þess að mæta á svæðið. Þannig er hægt að koma í veg fyrir smithættu. Alls hafa 16 einstaklingar á Íslandi greinst með Covid-19 veiruna.