Saga þriggja skáldkvenna

Leikfélag Hörgdæla hóf sýningar á leikritinu Þöggun sl. föstudag. Leikritið er leikið á staðnum þar sem sagan gerist, á Möðruvöllum. Þöggun er saga þriggja skáldkvenna, Ólafar frá Hlöðum, Skáld-Rósu og Guðnýjar frá Klömbrum. Verk um konur úr Eyjafirðinum, sem sáu um heimilið, búsýsluna og gerðu það sem ekki mátti; þær skrifuðu. Ljóðskáldið Guðný Jónsdóttir var fyrst íslenskra kvenna til að fá birt eftir sig veraldlegt ljóð. Sagt er að hún hafi dáið úr sorg eftir að eiginmaður hennar yfirgaf hana og tók börnin frá henni.

Hann var yfirgengilega afbrýðisamur vegna skáldgáfu Guðnýjar. Ljóð hennar höfðu gengið manna á milli og varðveist þannig en ekkert af ljóðunum er til í eiginhandarriti. Margt mun hafa glatast af skáldskap skáldkvennana þriggja og sumt viljandi eyðilagt, því er þetta saga um þöggun.

Listamennirnir sem koma að leikritinu hafa mikla tengingu við verkefnið. Margrét Sverrisdóttir er leikkona að mennt og er nú prestfrúin á Möðruvöllum, Sesselía Ólafsdóttir lærði leiklist í London en hún fæddist og ólst upp á Auðbrekku, sama bæ og Guðný Jónsdóttir. Fanney Valsdóttir kemur frá Fornhaga, bænum sem Skáld-Rósa bjó á. Höfundur og leikstjóri er Jón Gunnar Þórðarson, en Guðný Jónsdóttir er amma langömmu hans.

Leikritið er því skrifað í dag, um mann úr fortíðinni sem leitar uppruna sína af annari kynslóð. Miðapantanir eru í símum 666-0170 og 666-0180 alla daga milli 16:00 og 18:00. Miðaverð er 1.500 kr og frítt er fyrir 14 ára og yngri.

Nýjast