Viðurkenningarnar voru afhentar í húsnæði Saga Capital fyrr í dag, 3. desember, á alþjóðadegi fatlaðra. Það var Bergur Þorri Benjamínsson formaður samstarfsnefndarinnar sem afhenti viðurkenningarnar. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson forstjóri Saga Capital tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri tók við viðurkenningunni fyrir hönd Naustatjarnar.
Bergur Þorri sagði að ástandið í þessum málum færi batnandi í bænum en þetta væri jafnan spurning um vilja og peninga. Þorvaldur Lúðvík var að vonum ánægður og hann sagði það jákvætt fyrir Saga Capital að hafa orðið fyrir valinu. Hann sagði að lagt hafi verið upp með það strax í byrjun að aðgengismál yrðu í lagi og að við breytingarnar á húsnæðinu hafi verið ráðist í lagfæringar, hafi komið ábendingar þar um. Sigrún Björk var einnig ánægð með taka við viðurkenningunni fyrir hönd Naustatjarnar. Hún sagði að viðurkenningar sem þessar ættu vera hvatning fyrir aðra. Sigrún sagði að hjá Akureyrarbæ væri lögð áhersla á gott aðgengi fyrir alla og að nýjum byggingum ættu þau mál að vera í lagi.