Safna gjöfum fyrir fólk með geðraskanir

Góðgerðafélagið „Gefðu gjöf sem yljar“ safnaði yfir 250 jólagjöfum í fyrra sem gefnar voru til fólks með geðraskanir sem dvaldi á geðdeildum eða sambýlum fyrir geðfatlaða yfir jólahátíðina. Stefnt er að því að safna allt að 400 gjöfum fyrir þessi jól. Dæmi eru um að fólk á geðdeild hafi enga gjöf fengið í fyrra nema í gegn um þetta verkefni. „Það getur enginn gert allt en það geta allir gert eitthvað. Hver einasta gjöf skiptir miklu máli,“ segir Erla Kristinsdóttir, formaður félagsins.

Það nýmæli verður í ár að starfsfólk geðdeilda og sambýla koma til með að aðstoða við að velja gjafir handa skjólstæðingum sínum þannig að sem mestar líkur séu á að gjöfn rati á réttan stað. Söfnunin fer fram um allt land en tekið er sérstaklega fram að gjafir sem safnast á Akureyri og nágrenni fara til þeirra sem dveljast á geðdeild FSA yfir jólin.

Hugmyndina að verkefninu fékk Erla Kristinsdóttir fyrir tveimur árum eftir að hafa lesið pistil eftir nöfnu sína Erlu Hlynsdóttur blaðamann þar sem hún lýsti því þegar hún var á vakt á Kleppi á aðfangadagskvöld og vegna niðurskurðar hafði spítalinn hætt að gefa sjúklingum jólagjafir. Það stefndi í að sumir sjúklinganna fengju því engar jólagjafir ogþví ákváðu starfsmennirnir að slá saman í litlar gjafir handa þeim.

„Ég tengdi sterkt við þessa frásögn því systir mín var á Kleppi á sínum tíma og í framhaldinu strengdi ég áramótaheit í fyrsta skipti og ákvað að tryggja að allir sem dveldu á geðdeild komandi jól fengju jólagjöf,“ segir Erla Kristinsdóttir.

Verkefnið gekk svo vel að formlegt félag var stofnað fyrr á þessu ári og söfnun gjafa fer nú fram í annað skipti.   Karlmenn eru í meirihluta þeirra sem dvelja á geðdeildum yfir jól, eða allt að 70%, og því er lögð sérstök áhersla á að safna gjöfum sem henta karmönnum en þeir sem fá gjafirnar eru allt frá tvítugu og upp í 75 ára.

Á Facebook-síðu félagsins; https://www.facebook.com/gjofsemyljar  er að finna allar upplýsingar um þá aðila sem taka á móti gjöfum um land allt og símanúmer þeirra.

Nýjast