11.desember - 18.desember - Tbl 50
Sæfara fagnað við komu til Grímseyjar
Um hádegið í dag kom ferjan Sæfari til Grímseyjar fullhlaðin varningi og með um 50 farþega. Skipið hefur verið í viðhaldi á Akureyri síðan um miðjan mars og stóð til að það yrði í um 6 til 8 vikur í slipp. Þær áætlanir stóðust ekki og er ferjan nú búin að vera úr áætlun í samtals um 12 vikur.
Gleðin var því mikil í Grímsey þegar ljóst var að ferjan gat siglt í morgun og voru margir mættir niður að höfn til að taka á móti skipinu þegar það lagði að bryggju.
Mjög vinsælt er að koma til Grímseyjar, sérstaklega á vorin og sumrin þegar eyjan iðar af lífi þegar farfuglar streyma til varpstöðvanna. Fjarvera ferjunnar var því umtalsvert högg fyrir ferðaþjónustuna í eyjunni þar sem mikið var um afbókanir. Vona heimamenn að nú færist allt í eðlilegt horf á ný enda bjartasti tími sumarsins fram undan og hvergi betra að upplifa sumarsólstöður en einmitt þar við heimskautsbauginn.
Á sumrin siglir ferjan 5 daga í viku til Grímseyjar frá Dalvík, mánudaga, miðvikudaga, fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga og tekur siglingin um 3 tíma hvora leið. Auk þess flýgur Norlandair tvo daga í viku á þriðjudögum og sunnudögum. Hægt er að kynna sér frekar upplýsingar varðandi samgöngur, afþreyingu, gistingu o.fl. á heimasíðu Grímseyjar www.visitgrimsey.is