SA tryggði sér oddaleik

SA náði að tryggja sér oddaleik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla er liðið lagði Björninn að velli, 3:2, í fjórða leik liðanna í Egilshöllinni í kvöld. Með sigri hefði Björninn tryggt sér titilinn en norðanmenn voru ekki á þeim buxunum að fara í sumarfrí í kvöld og liðin mætast því í hreinum úrslitaleik í Skautahöll Akureyrar næstkomandi miðvikudag.

Ekkert mark var skorað í fyrsta leikhlutanum í kvöld en á 7. mínútu í öðrum leikhluta kom Róbert Freyr Pálsson Birninum yfir. Það tók SA hins vegar aðeins eina mínútu að jafna leikinn og það gerði Jóhann Már Leifsson og staðan 1:1 fyrir þriðja og síðasta leikhluta.

Björninn náði forystunni á nýjan leik í upphafi þriðja leikhluta með marki frá Daða Erni Heimissyni. Staðan 2:1. SA tók þá heldur betur við sér og skoruðu tvö mörk á níu mínútna kafla með mörkum frá þeim Sigurði Sveini Sigurðssyni og Josh Gribben, sem sáu til þess að SA fær tækifæri til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli á miðvikudagskvöldið næstkomandi kl. 19:15.

Nýjast