SA sigraði og jafnar metin

SA lagði Björninn að velli, 7:4, er liðin mættust í dag í Skautahöll Akureyrar í öðrum leik liðanna í úrslitakeppninni í íshokkí karla. SA hefur þar með jafnað rimmuna og standa leikar nú 1:1. Sigurinn var ansi mikilvægur fyrir heimamenn þar sem næstu tveir leikir fara fram á heimavelli Bjarnarins. Þeir Stefán Hrafnsson, Jón Benedikt Gíslason og Rúnar Freyr Rúnarsson skoruðu tvö mörk hver fyrir SA í leiknum og Björn Már Jakobsson eitt mark.

Fyrir Björninn skoraði Úlfar Jón Andrésson tvö mörk og þeir Gunnar Guðmundsson og Ólafur Hrafn Björnsson eitt mark hvor.

Eins fyrr segir er staðan í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn, 1:1, eftir tvo leiki en þrjá sigra þarf til þess að landa titlinum. Næstu tveir leikir fara fram í Egilshöll, sá fyrri á sunnudaginn kemur kl. 14:00 í beinni útsendingu á RÚV, og sá síðari á mánudaginn kemur. Fari rimman í fimm leiki verður fimmti og síðasti leikurinn leikinn í Skautahöll Akureyrar, miðvikudaginn 10. mars.

Nýjast