SA lá á heimavelli í kvöld

Fyrsta tap SA á Íslandsmótinu í íshokkí karla leit dagsins ljós í kvöld þegar liðið tapaði gegn SR, 5:7, er félögin áttust við í Skautahöll Akureyrar. Gestirnir að sunnan byrjuðu leikinn af krafti og komust 2:0 yfir eftir tæplega tíu mínútna leik með mörkum frá Gauta Þormóðssyni og Steinari Páli Veigarssyni. Stefán Hrafnsson minnkaði muninn fyrir SA á 13. mínútu í fyrsta leikhluta.

Daniel Kolar kom SR í tveggja marka forystu á nýjan leik með marki á 16. mínútu en aðeins mínútu síðar skoraði Einar Valentine fyrir SA og minnkaði muninn í 2:3. Áður en leikhlutinn var allur náði SR sínu fjórða marki í leiknum og þar var að verki Guðmundur Björgvinsson og SR hafði yfir, 4:2, eftir fyrsta leikhluta.

Aðeins eitt mark var skorað í öðrum leikhluta og það gerði Gauti Þormóðsson fyrir SR og kom gestunum í þriggja marka forystu, 5:2, fyrir þriðja og síðasta leikhluta. Orri Blöndal minnkaði muninn fyrir SA í upphafi þriðja leikhluta en Gauti Þormóðsson kom SR í þriggja marka forystu á nýjan leik, 6:3, þegar hann skoraði sitt þriðja mark í leiknum. Heimamenn náðu að minnka muninn niður í eitt mark með mörkum frá þeim Sigurði Sigurðssyni og Jóhanni Má Leifssyni þegar skammt var til leiksloka.

Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum hafði SR yfir, 6:5. Heimamenn tóku þá á það ráð að taka markvörðinn útaf og bættu sjötta útileikmanninum inn og freistuðu þess að jafna leikinn. Það tókst þó ekki því SR rak smiðshöggið á lokamínútunni með marki frá Daniel Kolar.

Lokatölur í kvöld, 7:5 sigur SR og fyrsta tap SA í deildinni staðreynd. Næsti leikur SA er útileikur gegn Birninum, 31. október nk.

Nýjast