SA hafði betur gegn Birninum í kvöld

SA hafði betur gegn Birninum er liðin mættust í Skautahöll Akureyrar á Íslandsmótinu í íshokkí karla nú í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 4:2 heimamönnum í vil. SA náði með sigrinum að minnka forskot SR á toppi deildarinnar niður í sex stig og á þar að auki leik til góða. SA fór vel af stað gegn Birninum í kvöld og Einar Valentine kom heimamönnum yfir strax á 4. mínútu fyrsta leikhluta. Stefán Hrafnsson bætti öðru marki SA við þremur mínútum síðar og staðan 2:0 fyrir heimamenn eftir 1. leikhluta.

Andri Freyr Sveinsson kom SA í 3:0 í upphafi 2. leikhluta og á 10. mínútu leikhlutans skoraði Steinar Grettisson fjórða mark SA í leiknum, sem hafði örugga 4:0 forystu fyrir þriðja og síðasta leikhlutann og allt útlit fyrir þægilegan sigur heimamanna.

Leikmenn SA slökuðu þó full mikið á í 3. leikhluta og Björninn náði að minnka muninn niður í tvö mörk, 4:2, á þriggja mínútna kafla í upphafi leikhlutans. Lengra komust þó gestirnir ekki og SA landaði mikilvægum sigri.

SA hefur 12 stig í öðru sæti deildarinnar eftir sjö leiki en Björninn hefur þrjú stig í þriðja sætinu.

Nýjast