Ríflega helmingur bæjarbúa á Akureyri skrifuðu á undirskriftalista þar sem skorað er á stjórnvöld að halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni. Alls skrifuðu 9.345 Akureyringar undir listann en til samanburðar kusu 9.537 manns í síðustu sveitarstjórnarkosningum á Akureyri. Sú staðreynd að 73% kosningabærra Akureyringa hafi skrifað undir er sterk yfirlýsing, segir Njáll Trausti Friðbertsson, annar formanna Hjartans í Vatnsmýrinni og flugumferðarstjóri.
Þrátt fyrir yfirlýstan stuðning bæjarbúa og að um fjölmennustu áskorun frá upphafi sé að ræða segir Njáll Trausti baráttuna vera að breytast. Hann segir samkomulagið við borgarstjórn Reykjavíkur um sáttarferli flugvallarins í október í fyrra sé virt að vettugi; menn innan borgarstjórnarinnar ætli sér að koma flugvellinum burt úr Vatnsmýrinni.