Rúmlega 10.000 fuglar merktir árlega hér á landi

Sverrir merkir álftir.
Sverrir merkir álftir.

Guðmundur A. Guðmundsson dýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands og umsjónarmaður fuglamerkinga mun á fundi á Akureyri í kvöld, fimmtugdagskvöld, fjalla um sögu fuglamerkinga á Íslandi og sýna dæmi um niðurstöður þeirra. Fjallað verður um fuglamerkingar, hvaða tegundir hafa helst verið merktar, varðveislu gagna og sýnd nokkur dæmi um niðurstöður, m.a. hvar íslenskir fuglar eyða vetrinum.

Fundurinn er haldinn að Borgum á háskólasvæðinu við Sólborg á Akureyri, hann hefst kl. 20.00 og eru öllum opinn. Sverrir Thorstensen fuglaáhugamaður á Akureyri, segir að nú sé um 40 virkir merkingamenn á landinu öllu og þeir merki allt frá örfáum fuglum upp í rúmlega 2000 á ári hver um sig. Flestir séu þeir áhugamenn, ekki tengdir beint við nein sérstök verkefni né stofnun og merki það sem verður fyrir þeim hverju sinni. “Það er þó að aukast að líffræðingar séu að vinna að ákveðnum verkefnum og rannsóknum á fuglum og merkja þá í tengslum við slík verkefni. Dæmi um slíkt eru t.d. rannsóknir Ólafs K. Nielsen á rjúpu og fálka í Þingeyjarsýslum og vöktun varpstofns álfta í Skagafirði, Þingeyjarsýslum og á Jökuldalsheiði.”

Sverrir segir að hér fyrir norðan séu 7-8 virkir merkingarmenn, einn í Fljótum, 3 á Akureyri og 3-4 í Þingeyjarsýslum. Í árdaga merkinga hér á landi voru mun fleiri merkingarmenn á Norðurlandi, sérstaklega í S-Þingeyjarsýslu. Um merkingar á Akureyri og í grennd segir Sverrir. “Á sumrin merkjum við mikið af ungum skógarþrasta og auðnutittlinga í hreiðrum. Í óshólmunum merkjum við æðarfugla, bæði fullorðna og unga. Þegar vaðfuglaungar eru komnir á kreik í júli grípum við slatta af ungum (heiðlóa, spói, jaðrakan, stelkur, tjaldur) og merkjum. Undanfarin 11 haust hef ég verið að skoða aldurshlutföll skógarþrasta að hausti (hlutfall unga í stofninum). Það geri ég með því að veiða þá í sérstakt net í garði nágranna míns við stór reynitré. Fuglarnir koma í garðinn til að éta reyniberin. Ég aldursgreini fuglana (ungar frá sumri eða eldri) og merki. Alls hef ég merkt rúmlega 5000 þresti í þessum tilgangi. Á veturna fóðrum við snjótittlinga og auðnutittlinga og veiðum til merkinga,” segir Sverrir.

 

Endurheimtast við ýmsar aðstæður

 

Hann segir að árlega séu merktir rúmlega 10 þúsund fuglar hér á landi og þar af merkja Norðlendingar um þriðjung. Sverrir segir að merktir fuglar endurheimtist svo við ýmsar aðstæður. “Æðarkollur merktar við Akureyrarflugvöll teknar þar á hreiðri ár eftir ár - allt upp í 20 ár eftir merkingu. Tjaldsungi merktur við Akureyrarflugvöll sást síðan sem varpfugl 3 árum seinna á sama stað. Álft merkt sem fullvaxinn kvenfugl í fjaðrafelli á Skjálftavatni í Kelduhverfi sást árlega sem varpfugl neðan við Laugaland í Eyjafirði í 8 ár. Þessi álft mætti alltaf með fjölskylduna á sama akurinn á N-Írlandi í lok október ár hvert þar sem fuglaáhugamaður las á merkið. Eftir að hún missti maka sinn fyrir um 4 árum hefur hún sést í geldfuglahópi í Eyjafirði nær árlega en hefur líkast til ekki orpið.  Merktir snjótittlingar flakka á milli gjafastaða og fara þá víða um land.  Merkingar okkar og aldurs- og kyngreiningar hafa sýnt að um 80% af snjótittlingum sem halda til á Norðurlandi á veturna eru karlfuglar. Kvenfuglarnir fara suður á land eða jafnvel til Skotlands á veturna. Fyrir mörgum árum merkti Kristlaug Pálsdóttir snjótittlinga á Húsavík.  Einn þeirra náðist síðan í Stórutjarnaskóla aðeins um 4 klst eftir að hann hafði verið merktur á Húsavík.  Eitthvað telur fuglinn sig græða á þessu flandri, “ segir Sverrir.

Fuglamerkingar á Íslandi hófust árið 1921, fyrir tilstilli danska fuglafræðingsins Peter Skovgaard. Hann sendi merki til Íslands og fékk nokkra menn til liðs við sig til að merkja fugla. Sjálfur kom hann aldrei til Íslands, en á hans vegum voru tæplega 14 þúsund fuglar merktir og endurheimtust 752 þeirra (471 innanlands og 281 erlendis). Merkingar á vegum Íslendinga hófust 1932 og hafa á þeim 80 árum sem liðin eru um 600 þúsund fuglar verið merktir og um 35 þúsund endurheimst.

 

 

Nýjast