Rokk og afmælistónleikar á Græna hattinum

Hljómsveitin Buff heldur afmælistónleika á Græna hattinum um helgina.
Hljómsveitin Buff heldur afmælistónleika á Græna hattinum um helgina.

Í kvöld, fimmtudaginn 31. október munu lög eftir The Eagles hljóma á Græna hattinum. Sveitina þarf varla að kynna fyrir neinum en hún er ein vinsælasta hljómsveit fyrr og síðar. The Eagles hefur selt yfir 200 milljónir hljómplatna á heimsvísu, en bandið var stofnað árið 1971 og er enn starfandi í dag. Lög á borð við Hotel California, Take It Easy, Lying Eyes, Tequila Sunrise, Desperado og Peaceful Easy Feeling eru flestum kunn en sveitin státar af ótal mörgum vinsælum lögum sem hafa verið mikið spiluð í gegnum árin. Þeir íslensku tónlistarmenn sem ætla að flytja slagara Eagles eru þeir Jógvan Hansen, Matthías Matthíasson og Vignir Snær Vigfússon. „Enginn sannur Eagles aðdáandi verður svikinn af að láta sjá sig á Græna hattinum þetta kvöld,“ segir um tónleikana sem hefjast kl. 21.00.

Hljómsveitin DIMMA hefur svo sannarlega risið úr dvala og hefur spilað um landið undanfarið þar sem uppselt hefur verið á hverja tónleikana á eftir öðrum og vilja margir meina að bandið sé nú í sínu besta formi til þessa. Föstudaginn 1. nóvember heimsækir DIMMA Græna hattinn og hefjast tónleikarnari kl. 22:00. Meðlimir DIMMU eru um þessar mundir að semja nýtt efni fyrir sína sjöttu breiðskífu sem áætlað er að komi út í lok ársins. Það er því ekki ólíklegt að tónleikagestir Græna hattsins fái að heyra eitthvað nýtt í bland við eldri perlur.

Hljómsveitin Buff fagnar 20 ára afmæli í vetur og fagnar áfanganum á Græna hattinum á laugardagskvöldið 2. nóvember. Buff hefur frá byrjun verið ein vinsælasta ballhljómsveit landsins. Á þessum 20 árum hefur sveitin tekið þátt í sjónvarpsþáttum eins og Það var lagið og Singing Bee og gefið út fjórar breiðskífur ásamt fjölda laga á safnplötum. „Á þessum 20 árum hefur Buffið þó aldrei haldið tónleika með eigin efni og er því við hæfi að gera það á afmælisárinu. Á afmælistónleikum Buffsins munu meðlimir sveitarinnar fara í gegnum söguna í tónum og tali. Frá mörgu er að segja og má því búast við skemmtilegri kvöldstund með lögum Buffsins og öllum sögunum frá þessum 20 árum,“ segir um tónleikana. Meðlimir Buff á 20 ára afmælinu eru Einar Þór Jóhannsson, Hannes Friðbjarnarson, Haraldur V. Sveinbjörnsson, Karl Olgeirsson, Pétur Örn Guðmundsson og Stefán Örn Gunnlaugsson. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.

 


Athugasemdir

Nýjast