Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til samþættra aðgerða til að styðja við byggð í Grímsey, m.a. með því að styrkja stöðu útgerðar frá Grímsey, bæta samgöngur og framkvæma hagkvæmniathugun á lækkun húshitunarkostnaðar. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, en forsætisráðherra lagði tillöguna fram.
Frá þessu er greint á mbl.is.
Þar segir ennfremur að fram komi í tilkynningu að verkefnið „Brothættar byggðir“ muni styðja við byggð í Grimsey. Ríkisstjórnin samþykkti 20. ágúst, einnig að tillögu forsætisráðherra, að setja á laggirnar vinnuhóp til að skoða stöðu Grímseyjar í ljósi fyrirliggjandi tillagna frá aðgerðarhópi Akureyrarbæjar. Það er mat vinnuhópsins að byggð í Grímsey muni eiga undir högg að sækja komi ekki til aðgerða stjórnvalda nú.
Vinnuhópurinn var skipaður fulltrúum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra), innanríkisráðuneytinu og forsætisráðuneytinu sem leiddi hópinn.
„Það er áríðandi að bregðast við þeirri erfiðu stöðu sem uppi hefur verði í Grímsey undanfarin ár. Heimamenn óttast að ef ekkert verði að gert leggist útgerð í Grímsey af og jafnvel búseta í framhaldi af því.
Ég hef trú á að með þessum aðgerðum sem nú liggja fyrir og byggja að talsverðu leyti á tillögum heimamanna verði unnt að styðja við áframhaldandi búsetu í þessari nyrstu byggð landsins. Sérstaða eyjunnar er óumdeild,“ er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.
Vinnuhópurinn heimsótti Grímsey dagana 19. – 20. október sl. og kynnti drög að tillögum fyrir heimamönnum.