Á Akureyri eru nú 532 án atvinnu, 305 karlar og 227 konur. Um 12% eru í hlutastörfum. Flestir á skrá eru með grunnskólamenntun og um 20% með háskólamenntun eða rétt rúmlega 110 manns. Verið er að kortleggja hópinn til að geta bætt í úrræði. Tæplega 60 manns afskráðust í framhaldi af átakinu Nám er vinnandi vegur. Bráðabirgðaákvæði um minnkað starfshlutfall og sjálfstætt starfandi einstaklinga duttu úr gildi um áramót. Á árinu gætu afskrást 39 manns sem eru búnir að vera á skrá í 3 ár og í lok ársins detta út 21 sem eru á 48 mánaða reglu.
Framundan er sá árstími sem venjulega er erfiðastur. Körlum fjölgar nú aftur á skrá þegar útivinna dregst saman. Bætur hækkuðu um áramót og eru grunnbætur nú kr. 167.176 og tekjutengdar bætur kr. 263.548. Þetta kemur fram í bókun frá síðasta fundi almannaheillanefndar. Þar kemur einnig fram að þétt og jöfn aukning hafi verið í útgjöldum til fjárhagsaðstoðar hjá fjölskyldudeild Akureyrarbæjar en einstaklingum hafi ekki fjölgað mikið. Á síðasta ári voru greiddar 112 milljónir í fjárhagsaðstoð. Hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands er starfsemi í fullum gangi, úttektir sem gerðar hafa verið benda til þess að vel sé að takast til og árangur góður. Þá er gert ráð fyrir að skrifstofa Umboðsmanns skuldara í Glerárgötu 26, 1. hæð verði opnuð 1. febrúar.
Varðandi skólamál virðist meiri pirringur vera í fólki og upp koma mál sem varða árekstra milli fólks. Verulega meiri órói var í nemendahópnum í sumum skólum á haustönn. Fylgjast þarf með því hvaða áhrif gjaldskrárhækkanir hafa, ekki síst í Frístund, segir m.a. í bókun frá fundi almannaheillanefndar.