Reyna að opna fyrir bílaumferð um Vaðlaheiðargöng fyrir veturinn

Svo gæti farið að Vaðlaheiðargöng opni fyrir áramót.
Svo gæti farið að Vaðlaheiðargöng opni fyrir áramót.

Í skoðun er að opna fyrir bílaumferð um Vaðlaheiðargöng í haust. Valgeir Bergmann Magnússon, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., greindi fyrst frá þessu í viðtali á Útvarp Akureyri í vikunni. Í drögum að síðustu vinnuáætlun verktaka er gert ráð fyrir verkskilum 15. janúar á næsta ári og því leit allt út fyrir að ekki yrðið opnað í ár.

Valgeir Bergmann staðfestir í samtali við Vikudag að leitað sé nú leiða til að opna göngin á þessu ári.

Skoða að fresta verkþáttum sem ógna ekki öryggi vegfarenda

„Við erum að skoða þann möguleika að fresta ákveðnum verkþáttum sem ógna ekki öryggi vegfarenda og getum þá opnað fyrir umferð á þessu ári,“ segir Valgeir í samtali við blaðið. „Við vorum ekki sáttir við að geta ekki opnað á þessu ári og vildum því skoða alla möguleika til að flýta fyrir opnun. En það er ekkert fast í hendi ennþá og aðeins verið að kanna möguleikana.“

Hann segist reikna með að það skýrist á næstu dögum hvort af þessu geti orðið. „Og þá er alveg óljóst hvenær opnað yrði en við viljum auðvitað gera það sem fyrst,“ segir Valgeir.

Í apríl í fyrra var slegið í gegn í göngunum og á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að eftirvinnslan tæki um fimmtán mánuði. Það hefði þýtt að göngin yrðu opnuð í júlí eða ágúst á þessu ári en síðar kom í ljós að líklega yrði ekki opnað fyrr en í byrjun ársins 2019 vegna magnaukninga og ýmissa viðbótarverka. Undanfarnar vikur hafa m.a. staðið yfir lagnavinna í Vaðlaheiðargöngum og útivinna í Fnjóskárdal.  

Nýjast