Reykjavíkurflugvöllur er ekki að fara neitt í bráð

Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti Friðbertsson.

Það kom skýrt fram við kynningu á Hvassahraunsskýrslunni, um flugvallakosti á Suðvesturhorni landsins, að Reykjavíkurflugvöllur er ekki á förum í bráð. Borgarstjóri tók sjálfur þátt í vinnu starfshópsins og skrifaði undir niðurstöður og tillögur hópsins. Það var kynnt sem meginforsenda í skýrslunni að tveir flugvellir verði á suðvesturhorni landsins, þannig að þar verði varaflugvöllur fyrir millilanda- og innanlandsflug líkt og hefur verið.

Ríkið þarf að tryggja að staðið verði við viðeigandi breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar án tafar, og að gert verði ráð fyrir flugvellinum í Vatnsmýri í það minnsta til ársins 2040 í því skipulagi, en borgarstjóri og samgönguráðherra undirrituðu samkomulag samhliða kynningu á skýrslunni þar sem aðilar voru sammála um að rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli yrði tryggt á meðan undirbúningur að gerð nýs flugvallar stæði yfir. Að Reykjavíkurflugvöllur geti þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar. Meðal annars er fjallað um að eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja þurfi á Reykjavíkurflugvelli til að tryggja rekstraröryggi á vellinum.

Sporin hræða

Sporin hræða þegar Reykjavíkurflugvöllur er annars vegar enda hafa á undanförnum árum og áratugum verið gerð ótal samkomulög um Reykjavíkurflugvöll sem hafa engu vatni haldið. Þess vegna er mikilvægt að tryggja Reykjavíkurflugvöll í aðalskipulagi borgarinnar áður en lengra er haldið. Borgaryfirvöld þurfa að sýna að raunverulegur vilji sé fyrir því að vinna faglega að flugvallarmálum. Ef ekki koma fram skýrar skuldbindingar borgarinnar um að halda í Reykjavíkurflugvöll ríkir óvissuástandið áfram en samkvæmt gildandi skipulagi á að loka aðalbraut vallarins sem liggur frá norðri til suðurs eftir tvö ár, en slíkt gerir völlinn óstarfhæfan.

Með undirritun samkomulagsins er framtíð Reykjavíkurflugvallar tryggð í Vatnsmýrinni þangað til jafngóður eða betri flugvöllur hefur byggður upp. Flugvöllur sem getur sinnt innanlandsflugi, sjúkraflugi, kennslu- og einkaflugi og þjónað sem varaflugvöllur með jafn öruggum og traustum hætti og sá sem nú er í Vatnsmýrinni.

-Njáll Trausti Friðbertsson 


Athugasemdir

Nýjast