Rétt handtök skipta sköpum

Frá skyndihjálparnámskeiði á Akureyri.
Frá skyndihjálparnámskeiði á Akureyri.

„Það koma reglulega upp tilfelli þar sem fólk vísar til þess að það hafi hjálpað því í ákveðnum aðstæðum að hafa farið á skyndihjálparnámskeið,“ segir Hafsteinn Jakobsson framkvæmdastjóri Rauða krossins á Akureyri. Hafsteinn segir Rauða krossinn standa fyrir skyndihjálparnámskeiðum reglulega, ýmist fyrir fyrirtæki, hópa eða almenning. Hann segir námskeiðin fyrir almenning mættu vera betur sótt. Í viðtali í Vikudegi fyrir skömmu sagði móðir lítillar stúlku sem veiktist lífshættulega af E.Coli bakteríu frá því hvernig faðir stúlkunnar hafi bjargað lífi hennar með því að blása í hana á meðan beðið var eftir sjúkrabíl.

Hann hafði farið á skyndihjálparnámskeið og segir móðir stúlkunnar að það hafi sennilega orðið litlu stúlkunni til lífs. Þá brást starfsfólks Sundlaugar Akureyrar hárrétt við þegar eldri maðurinn fannst á botni sundlaugarinnar nýlega en skyndihjálparkunnátta gerði það að verkum að starfsfólk gat hafið endurlífgun á staðnum.

„Æskilegast væri að sem flestir kynnu skyndihjálp því það geta allir lent í aðstöðu sem krefst kunnáttu í skyndihjálp. Þá geta rétt handtök skipt sköpum og bjargað mannslífi,“ segir Hafsteinn.

Meiri kröfur á barnapíur

Sífellt færist í vöxt að foreldrar geri þær kröfur að barnapíur hafi lokið sérstöku skyndihjálparnámskeiði hjá Rauða krossinum. Félagið býður upp sérstakt námskeið fyrir 12 ára og eldri sem nefnist Börn og umhverfi, þar sem m.a. er fjallað um þroska barna, samskipti og leiki og leikföng.

„Eflaust er fólk meðvitaðra um hættur og öryggi og gerir þar af leiðandi meiri kröfur á „fagaðila“ sem gæta barna þeirra,“ segir Hafsteinn. „Í mínum huga er hins vegar ábyrgðin fyrst og fremst foreldranna þegar þeir frá barn til þess að passa barn. Við getum varla gert sömu kröfur til þeirra og fullorðinna einstaklinga.“

throstur@vikudagur.is

Nýjast