RES Orkuskóli tekur til starfa

Það var stór dagur í skólabænum Akureyri í gær, þegar RES Orkuskóli tók formlega til starfa, með opnunarhátíð í Ketilhúsinu. Skólinn er afrakstur fjögurra ára undirbúningsferlis og verður alþjóðleg einkarekin mennta- og vísindastofnun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Við þetta tækifæri opnaði Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra  nýja heimasíðu skólans. Fyrsti nemendahópur skólans er væntanlegur til Akureyrar eftir um fjórar vikur en áætlað er að nemendur verði 50-80 þegar skólinn verður kominn í fulla starfsemi. Ljóst er að umfang skólans kallar á byggingu vísindagarða við Háskólann á Akureyri  og sömuleiðis er í farvatninu bygging nýrra íbúða við stúdentagarða Háskólans á Akureyri sem nýtast munu skólanum.

Orkuvörður ehf. hefur með stuðningi fyrirtækja og stofnana á borð við Vaxtarsamning Eyjafjarðar, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands unnið að stofnun skólans.  Alls mun stofnhlutafé Orkuvarða ehf. verða um 200 milljónir króna. Hluthafar eru Þekkingarvörður ehf., RARIK, KEA, Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga, Landsvirkjun, Norðurorka, Akureyrarkaupstaður og Landsbanki Íslands.

Nýjast