29. mars, 2007 - 13:56
Fréttir
Í dag, fimmtudaginn 29. mars kl. 17:00, verður opnuð í Deiglunni
sýning René Smith sem undanfarið hefur gist gestavinnustofu Gilfélagsins. Sýningin er aðeins opin til kl. 21:00 í kvöld, þar sem René hefur ákveðið að giftast unnusta sínum í Mývatnssveit nk. laugardag og þarf því morgundaginn í undirbúning. Á sýningunni eru verk sem René hefur unnið á meðan á dvölinni hefur staðið; pastelmyndir byggðar á gömlum fjölskylduljósmyndum og ljósmyndir af ástvinum en þær myndir eru teknar á Akureyri af fólki sem þykir vænt hvoru um annað, á stöðum sem þeim eru kærir eða eru þeim mikilvægir á einn eða annan hátt. Í verkum sínum skoðar René hugmyndina um hina fullkomnu stund, bæði fegurð sjálfrar stundarinnar og hvernig hún dofnar í tímans rás. Verk hennar fjalla um minningar, sambönd og þann einkastað sem heimilið er.
René býr í Queens New York og vinnustofa hennar er í Brooklyn. Hún hefur meistaragráðu í listmálun frá Temple University í Fíladelfíu og Róm og BA gráðu frá Bennington í Vermont. Verk hennar hafa verið sýnd á samsýningum og einkasýningum um gjörvöll Bandaríkin. Frekari upplýsingar um René er að finna á heimasíðu hennar: www.renesmith.net