Rekstur Slippsins Akureyri aldrei gengið betur

Verkefnastaða Slippsins Akureyri hefur verið með allra besta móti á þessu ári og hefur reksturinn aldrei gengið betur frá því nýir eigendur tóku við rekstrinum seinni hluta ársins 2005. "Það hefur verið mjög mikið að gera allt þetta ár og mikil yfirvinna, þrátt fyrir að við höfum fjölgað starfsmönnum um 25 á árinu," segir Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri.  

Starfsmenn Slippsins eru nú tæplega 130 og þar af um 20 iðnnemar. Til viðbótar hafa um 30 starfsmenn undirverkta Slippsins verið við vinnu á svæðinu undanfarna mánuði. "Það eru því býsna margir sem að þessari starfsemi koma. Við njótum líka góðs af annarri starfsemi í bænum, m.a. Becromal en þar hafa 15-20 karlar frá okkur verið að vinna við uppbyggingu verksmiðjunnar. Verksmiðja Becromal er stóriðja og skiptir marga hér á svæðinu máli, þar á meðal okkur."

Einnig segir Anton að það hafi skipt miklu máli fyrir starfsemi Slippsins að fá vinnu við breytingar og endurbætur á rannsóknarskipum fyrirtækisins Neptune. "Það munar um allt svona og þetta gefur meiri stöðugleika í rekstrinum." Varðandi næsta ár segir Anton að verkefnastaðan fyrstu mánuði ársins sé góð og til viðbótar séu ýmis verkefni fyrir innlenda og erlenda aðila til skoðunar. Hann horfir því fullur bjartsýni til framtíðar.

Í vikunni festi Slippurinn kaup á húseignum Loftorku á athafnasvæði sínu. Húseignirnar voru í eigu þrotabús Loftorku og segir Anton að með kaupunum skapist ákveðið öryggi í kringum rekstur fyrirtækisins. Slippurinn keypti þessar húseignir af þrotabúi Slippstöðvarinnar árið 2005, seldi þær til Loftorku, sem rak þar einingaframleiðslu en hefur nú eignast þær á ný. Heildarflatarmál þeirra er um 4.200 fermetrar. Slippurinn hefur haft afnot af hluta húseignanna en Anton segir að finna þurfi verkefni til nýta þær allar. Ekki sé þó að döfinni að hefja skipasmíði á ný.

Slippurinn hefur einnig tekið yfir nýlegt 800 fermetra húsnæði sem bátasmiðjan Seigla var með á leigu en Seigla flutti starfsemi sína í stærra húsnæði  í Neshverfinu.

Nýjast