Rekstrarkostnaður Tónlistar - skólans tæpar 175 milljónir

Heildarekstrarkostnaður Tónlistarskólans á Akureyri er áætlaður tæpar 175 milljónir króna á þessu ári og lækkar frá áætlun síðasta árs um 3,5 milljónir króna. Kemur þar helst til að aðgerðir sem gripið var til á árinu 2009 til lækkunar á rekstri eru að koma fram á ársgrundvelli. Reiknað er með að heildartekjur verði rúmar 42 milljónir króna  og þar af eru skólagjöld áætluð um 29,6 milljónir króna. Tekjur hækka um 4,4 milljónir á milli ára.  

Launakostnaður er áætlaður 169,5 milljónir króna og lækkar um rúmar 5 milljónir. Vörukaup eru áætluð um 1,6 milljónir króna og lækka lítilega frá fyrra ári. Þjónustukaup hækka hins vegar á milli ára um rúmar 6,8 milljónir króna og verða rúmar 45 milljónir. Þessi hækkun skýrist af hærri húsaleigu sem kemur til af nýju húsnæði í Hofi. Í Tónlistarskólanum eru starfsmenn 42. Þeir sitja í 32,6 stöðugildum sem skiptast þannig að stjórnendur eru í 2,8 stöðugildum, kennarar í 27,2 og aðrir starfsmenn í 2,6. Þetta er mjög sambærilegur stöðugildafjöldi og verið hefur í skólanum undanfarin ár.

Gert hefur verið ráð fyrir því að gjaldskrá skólans breytist til samræmis við þróun verðlags og um áramótin var hún hækkuð um 8%. Samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, eiga sveitarfélög að greiða launakostnað kennara og skólastjóra. Tekjur af skólagjöldum geta því staðið undir öðrum kostnaði. Þegar tekjur skólans eru skoðaðar í þessu ljósi sést að þær standa undir 57% af öðrum rekstrarkostnaði skólans. Það þykir ekki raunhæft að skólagjöld standi undir öllum öðrum kostnaði þar sem húsaleiga er orðinn svo stór þáttur í kostnaðinum. Reiknað er með því að kostnaður pr. nemanda fyrir Akureyrarbæ, verði að meðaltali kr. 390.000 á ári en foreldrar/nemendur greiða frá kr. 70.000-90.000 á ári fyrir fullt nám á grunn- og miðstigi þar sem flestir nemendur stunda nám.

Reiknað er með sambærilegri starfsemi í skólanum á þessu fjárhagsári og verið hefur. Fjöldi nemenda hefur verið um 450 að meðaltali s.l. ár en á þessu ári er reiknað með að nemendur geti orðið um 500. Starfið er í mikilli þróun og hafa kennarar og nemendur verið mun meira áberandi í bæjarlífinu s.l. tvö ár. Þetta hefur verið gert með tónleikahaldi í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir. Á árinu mun skólinn flytja í nýtt og sérhannað rými í menningarhúsinu Hofi. Verður að reikna með því að ný aðstaða efli starf skólans. Skólinn hefur verið að bjóða upp á ný námstilboð og verður forvitnilegt að fylgjast með þeirri þróun. Þetta kemur fram í Skóla-akri, vefriti skóladeildar.

Nýjast