Rekstrahagnaður Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 34 milljónir

Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var haldinn á Breiðumýri 5. maí sl. Rekstur sparisjóðsins gekk vel á árinu 2015 og var rekstrarhagnaður rúmar 34 milljónir króna.
Viðskiptavinum sjóðsins fjölgaði umtalsvert á árinu, enda virðist, að sögn Ara Teitssonar stjórnarformanns Sparisjóðsins, aukinn áhugi vera á fjármálastarfsemi sem byggir fremur á samfélagslegum forsendum en hámarks ávöxtun eigin fjár.
Sparisjóðurinn hefur á undanförnum árum veitt sérstaka styrki til málefna sem styrkja innviði samfélagsins, eins og samþykktir hans segja til um. Að þessu sinn voru veittir tveir styrkir að upphæð kr. 500.000 hvor. Styrkina hlutu Hafdís Sigurðardóttir frjálsíþróttakona úr Þingeyjarsveit og Kvenfélagasamband Suður-Þingeyinga til endurbóta á Húsmæðraskólanum á Laugum, sem er í eigu sambandsins.
Á fundinum var samþykkt að auka stofnfé sparisjóðsins um allt að 140 mkr og gert ráð fyrir að bjóða nýjum stofnfjáreigendum helming þess fjár. Núverandi stofnfjárhafar sem eru um 250 hafa hins vegar forkaupsrétt að allt að 70 mkr.
Stjórn sparisjóðsins skipa nú: Ari Teitsson Hrísum, Helgi Héðinsson Geiteyjarströnd, Kolbrún Úlfsdóttir Rauðuskriðu, Margrét Hólm Valsdóttir Húsavík og Reinhard Reynisson Húsavík. JS