Reisa nýtt 2.000 fermetra gróðurhús

Skógarplöntuframleiðslan er í miklum vexti hjá Sólskógum og á þessu ári bætast við allt í allt 3500 …
Skógarplöntuframleiðslan er í miklum vexti hjá Sólskógum og á þessu ári bætast við allt í allt 3500 fermetrar í gróðurhúsum.

Sólskógar eru þessa dagana að láta reisa gróðurhús í Kjarnaskógi sem er 2.000 fermetrar að stærð. Áætlað er að byggingin verði tilbúinn í desember en að húsið verði tekið í notkun í apríl á næsta ári. Í gróðurhúsinu verða ræktaðar skógarplöntur. Sambærilegt gróðurhús var tekið í notkun hjá fyrirtækinu árið 2008. Hjá Sólskógum starfa tíu manns og fer starfsemin vaxandi að sögn Katrínar Ásgrímsdóttur sem er stofnandi og eigandi Sólskóga ásamt Gísla Guðmundssyni.

„Starfsmönnum fjölgar yfir sumarmánuðina og þá erum við rúmlega 20,“ segir Katrín. Fyrirtækið framleiðir og selur plöntur í garða, sumarbústaðalönd og til skógræktar. Starfsseminni má gróflega skipta í tvennt; framleiðslu sumarblóma og trjáplantna fyrir einkamarkaðinn á Norðurlandi og Austurlandi og síðan framleiðslu skógarplantna fyrir opinber verkefni á landinu öllu. „Skógarplöntuframleiðslan er í miklum vexti hjá okkur og erum við á þessu ári að bæta við allt í allt 3500 fermetrum í gróðurhúsum,“ segir Katrín.

Líkt og undanfarin ár verða Sólskógar með jólatrjáasölu á aðventunni. Katrín segir að áhugi á lifandi trjám haldist nokkuð stöðugur. „Salan er svipuð frá ári til árs og við sjáum mikið af ungu fólki sem heldur í þá hefð að vera með lifandi tré. Áhugi á íslenskum trjám fer einnig vaxandi,“ segir Katrín Ásgrímsdóttir.

 

 


Nýjast