Nauðsynlegt þykir að gera slíkar mælingar á fleiri en einum stað í bænum, þannig að hægt sé að gera samanburð, átta sig á vandamálinu og bregðast við. Þetta var á meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi Akureyrarbæjar og umhverfisráðuneytisins á Akureyri nú í hádeginu. Þar kynnti Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra skýrsluna um svifryksmengun og fór yfir tillögur starfshópsins. Þar er einmitt bent á að hægt sé ná árangri með því að efla almenningssamgöngur. Umhverfisráðherra leggur áherslu á að almenningssamgöngur verði efldar í samstarfi ríkisins og sveitarfélaga og að líta beri til árangurs Akureyringa sem fyrirmyndar á því á sviði. Farþegum með SVA hefur fjölgað um 60% frá því að fargjöld voru felld niður um síðustu áramót.
Starfshópurinn leggur jafnframt til að ríkisvaldið beiti efnahagslegum hvötum til að stýra markaðinum frá nagladekkjum með lækkun á tollum og sköttum á ónegld vetrardekk. Viðræður við fjármálaráðuneytið eru komnar af stað en engar ákvarðanir verið teknar. Einnig er gert ráð fyrir að sveitarfélög, Vegagerðin og Umferðarstofa haldi uppi fræðslu um notkun vetrardekkja. Þá er lagt til að sett verði reglugerð sem geri ráð fyrir sótsíum í öll stærri farartæki og vinnuvélar með dísilvélar. Sveitarfélög og lögregla komi á meiri stjórn og hömlum á umferð helstu stofnæða, bæði hvað varðar fjölda og hraða.