Reglubundin úttekt á matseðlum í leik-og grunnskólum Akureyrarbæjar

Akureyri.
Akureyri.

Fræðsluráð Akureyrarbæjar tók fyrir matseðla í leik- og grunnskólum á síðasta fundi en töluverð umræða hefur verið í bæjarfélaginu um matseðla í skólum bæjarins undanfarna daga og hvort þeir standist kröfur um góða næringu.

Í fræðsluráði segir að erindi fundarins hafi verið tvíþætt. Annars vegar ábending um að uppfæra þurfi matseðla í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar til að manneldismarkmiðum Embættis landlæknis verði náð og hins vegar ósk um að hægt verði að velja um jurtafæði í mötuneytum leik- og grunnskólanna.

Fræðsluráð telur mikilvægt að eiga reglulega umræðu um heilbrigði og velferð barna í sveitarfélaginu. Sú breyting að foreldrar hafi val um að börnin þeirra fái jurtafæði í leik- og grunnskólum bæjarins er allrar athygli verð. Fræðsluráð bendir á að frumskylda Akureyrarbæjar sé að fylgja manneldismarkmiðum Embættis landlæknis sem styðst við samnorrænar leiðbeiningar. Fræðsluráð tekur undir mikilvægi þess að ávallt sé boðið upp á fjölbreytt fæði í mötuneytum leik- og grunnskóla bæjarins og að hlutur grænmetis og ávaxta fari sívaxandi á sama tíma og hugað er að eins hreinum afurðum og gerlegt er hverju sinni.

Þegar kjöt er í aðalrétt skal þess gætt að aðrir fæðuflokkar standi börnum til boða. Jafnframt telur fræðsluráð nauðsynlegt að höfð sé eftirfylgni með því að manneldismarkmiðum sé fylgt á hverjum stað fyrir sig.

Fræðsluráð felur fræðslustjóra að koma á reglubundnum úttektum á matseðlum og gæðum matarins í mötuneytum skólanna auk þess að fylgja því eftir að í öllum skólum séu markmið Embættis landlæknis höfð að leiðarljósi og að matseðlar séu lýsandi fyrir það fjölbreytta fæði sem í boði er.


Nýjast