Rúmlega tvítugur karlmaður var nýlega dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir að ráðast á strætóbílstjóra á Akureyri en dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Atvikið átti sér stað fyrir utan Menningarhúsið Hof í desember sl. Samkvæmt lögregluskýrslu og öðrum gögnum var atburðarás málsins í meginatriðum sú að brotaþoli hafði verið í áætlunarferð á leiðinni Siglufjörður- Dalvík, en með endastöð við Menningarhúsið Hof á Akureyri.
Á meðal farþega var ákærði og var ætlan ákærða að fá að fara úr strætisvagninum nærri núverandi heimili sínu við Hlíðarbæ í Hörgársveit, skammt norðan Akureyrar. Bar ákærði því fram þá ósk að strætóbílstjórinn stöðvaði bifreiðina til að hleypa honum út. Þegar bílstjórinn hafnaði beiðninni og vísaði til starfsreglna hafi ákærði orðið geðveikt pirraður með þeim afleiðingum að til átaka kom.
Ákærði er dæmdur fyrir líkamsárás en fram kemur í dómi að hann hafi slegið bílstjórann í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut glóðarauga á hægra auga og hrufl á nefhrygg og bólgu, heilahristing og svima og sortnaði fyrir augum. Ákærði í málinu hefur áður komist í kast við lögin m.a. vegna alvarlegra líkamsárása og fíkniefnaaksturs. Auk fangelsisvistar þarf ákærði að greiða sakarkostnað upp á 217.460 krónur.
-þev