Á vef Rúv segir að tilkynnt hafi verið um eldinn snemma á sjötta tímanum á sunnudagsmorgun en slökkvistarfi lauk ekki formlega fyrr en klukkan 21.30 á sunnudagskvöld. Þá hafði stærsti hluti hússins verið rifinn niður, segir í tilkynningu lögreglu, svo að hægt væri að slökkva í öllum glæðum. Frágangsvinnu á vettvangi er þó enn ekki lokið, en vonir standa til að það klárist hið fyrsta.
Þrjár íbúðir voru í húsinu, sem var gamalt, bárujárnsklætt timburhús. Engan sakaði en eignatjón er umtalsvert, enda misstu íbúar allt sitt innbú og persónulegu eigur í eldinum, segir í frétt Rúv um málið.