Ragnheiður Björk Þórsdóttir valin bæjarlistamaður Akureyrar

Á Vorkomu Akureyrarstofu sem haldin var í einmuna veðurblíðu á Akureyri í dag, var tilkynnt að Ragnheiður Björk Þórsdóttir myndlistarmaður hljóti 8 mánaða starfslaun listamanns á Akureyri 2014-2015. Ragnheiður Björk er fremst í sinni röð meðal textíllistamanna hér á landi. Með list sinni leggur hún rækt við íslenskan menningararf bæði með rannsóknavinnu sinni og í sköpun nýrra vefmyndverka. Framlag hennar til myndlistar er metnaðarfullt og mikilsvert. Á samkomunni voru einnig veittar heiðursviðurkenningar Menningarsjóðs, viðurkenning Húsverndarsjóðs, viðurkenning fyrir byggingalist og athafna- og nýsköpunarverðlaun Akureyrar. 

Heiðursviðurkenningar úr Menningarsjóði fyrir mikilvægt framlag til menningarmála á Akureyri hlutu myndlistamaðurinn Guðmundur Ármann Sigurjónsson og leikkonan Sunna Borg.

 Arkitektastofan Gláma-Kím hlaut viðurkenningu fyrir byggingalist fyrir heildarútlit Háskólans á Akureyri og einkar áhugaverða heildarmynd háskólasvæðisins. Það var svo hið reisulega hús við Þórunnarstræti 99 sem hlaut viðurkenningu húsverndarsjóðs Akureyrar. Húsið var hannað af Guðjóni Samúelssyni árið 1943 en þá var hann húsameistari ríkisins. Til gamans má nefna að hann hannaði einnig Akureyrarkirkju og Barnaskóla Akureyrar (nú Rósenborg). Vel þykir hafa tekist til við að aðlaga húsið nýju hlutverki án þess að ganga of nærri upprunalegu útliti þess og raska fagurfræðilegum hlutföllum í því en samráð var haft við Minjastofnun/húsafriðunarnefnd um hönnun og frágang hússins. Arkitekt breytinganna var Gísli Kristinsson hjá arkitekt.is á Akureyri.

 Slippurinn á Akureyri, sem er stærsta skipasmíða- og málmvinnslufyrirtækið á Íslandi, veitti viðtöku Athafnaverðlaunum Akureyrar fyrir eftirtektarvert framtak í atvinnulífinu. Nýsköpunarverðlaunin komu í hlut Neptune ehf. en fyrirtækið gerir út tvö rannsóknarskip sem sérhæfð eru til að þjónusta orkugeirann. Það þjónar einnig fyrirtækjum og verkefnum í fjarskiptaiðnaði og kemur að meðhöndlun sæstrengja.

Nýjast