Nýnemadagar Háskólans á Akureyri verða í ljósi aðstæðna, algerlega rafrænir í ár. Þetta felur í sér að nýnemar mæta ekki á staðinn heldur í rafræna móttöku og fundi í gegnum Zoom á auglýstum tíma.
Skólastarf á haustmisseri er skipulagt með þeim hætti að samkomutakmarkanir muni hafa sem minnst áhrif á námið. Einu breytingarnar sem stúdentar gætu átt von á er fyrirkomulag námslota sem í einhverjum tilvikum gætu færst yfir í rafræn form. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri
„Það sveigjanlega námsfyrirkomulag sem Háskólinn á Akureyri hefur byggt upp og þróað í hartnær 20 ár gerir það að verkum að hægt er að halda úti allri kennslu og starfsemi, þrátt fyrir þær takmarkanir sem eru í gildi hverju sinni,” segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Fram kemur einnig að reynslan sýni að þátttaka á nýnemadögum auðveldar stúdentum að hefja nám. Það sé því mikilvægt að nýnemar mæti rafrænt og taki þátt í dagskránni þar sem þeim gefst tækifæri á að kynnast starfsfólki, þjónustu háskólans í upphafi náms, t.a.m. tölvukerfi, bókasafni, námsráðgjöf, alþjóðasamstarfi, húsnæði o.fl.