Rafmagnslaust í hluta af miðbæ Akureyrar

Rafmagnslaus er í hluta af miðbæ Akureyrar. Í tilkynningu frá Norðurorku segir að unnið sé að því að koma varaaflstöð á staðinn.  Á þessari stundu sé ekki ljóst hvort hægt verður að tryggja öllum notendum rafmagn með varaaflinu og óljóst hversu alvarleg bilunin er. Rafmagnstruflanir voru á Akureyri og nágrenni í nótt en rafmagn er komið á í flestum hverfum á Akureyri . Rafmagn var einnig komið inn á Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði og Húsavík.

Þó nokkuð hefur rignt undanfarna klukkustund og lögreglan á Norðurlandi eystra varar við miklu slabbi og bleytu á sumum götum.

"Bílar geta fljótt misst grip ef að ekið er of greitt við svona aðstæður. Annars hefur nóttin hér fyrir norðan gengið sæmilega enn sem komið er og virðist fólk hafa hlustað á viðvaranir og verið skynsamt. Enn er þó nokkuð hvasst í umdæminu og því rík ástæða til að fara áfram varlega," segir lögreglan.

Nýjast