Almennt verð rafmagnsdreifingar Norðurorku hækkaði um síðustu mánaðamót, 1. júlí og er nú 3,68 kr. á kWst. Í fyrrgreindri hækkun er hlutur Norðurorku að hækka úr 3,50 kr. á kWh í 3,68 kr. á kWh. eða 5%. Fastagjald hækkar einnig um 5%. Heildar kostnaður vegna rafmagnsdreifingar er því nú 7,23 kr. á kWh með flutningsgjaldi Landsnets, auðlindagjaldi og virðisaukaskatti.
Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku segir að fyrir notanda í um það bil 100 fermetra íbúð og með um 4000 kWh rafmagnsnotkun á ári þýði hækkunin í heild sinni rúmlega 1.800 krónur á ári. „Við þurfum þá að hafa í huga að rafmagnsnoktun notenda er mismunandi, það fer eftir fjölda einstaklinga í heimili og fjölskyldusamsetningu hversu mikið rafmagn er notað,“ segir hann.
Leitumst við að vera innan rammans
Helgi segir vert að halda því til haga að einungis sé um að ræða rafmagnsdreifingu. Að auki kaupi raforkunotendur raforku frá orkufyrirtækjum sem framleiða og selja raforku. Bendir hann á að verðskrá raforkudreifingar Norðurorku falli undir svokallaðan tekjuramma Orkustofnunar. Þannig þurfi verðskráin að falla að raforkulögum með tilliti til tekna á móti kostnaði samkvæmt ákveðnu reiknilíkani Orkustofnunar.
„Með verðbreytingunni er fyrirtækið að leitast við að vera innan ramma líkansins þannig að framlegð af raforkudreifingunni standi undir kostnaði við rekstur hennar en það hefur ekki náðst liðin misseri,“ segir Helgi.