Rændu rúmlega hálfri milljón

Mynd/Hörður Geirsson
Mynd/Hörður Geirsson

Ríkissaksóknari hefur ákært þrjá aðila fyrir hegningar- og fíkniefnalagabrot sem framin voru á Akureyri í febrúar árið 2012. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Einn hinnar ákærðu, 22 ára karlmaður, er kærður fyrir rán með því að hafa í húsnæði Fjölumboðsins ehf., að Geislagötu ógnað starfsmanni með úðavopni, sprautað einu sinni á hann, skipað honum að afhenda sér fjármuni úr peningaskúffu og haft á brott með sér 660.000 krónur sem starfsmaðurinn afhenti að hluta og ákærði hrifsaði úr peningaskúffu.

Einnig er hann ákærður fyrir að hafa í íbúð sinni 1,40 g af maríjúana. Annar karlmaður, 38 ára, er ákærður fyrir hlutdeild að ofangreindu ráni með því að hafa veitt meðákærða upplýsingar um ránsstaðinn og lagt honum til úðavopn, mótorhjólahjálm og bakpoka auk þess sem ákærði fékk hluta ránsfengsins í sinn hlut.

Þriðji ákærði í málinu, kona um þrítugt, er ákærð fyrir hilmingu með því að hafa í framhaldi af ofangreindu ránsbroti tekið við hluta ránsfengsins, lagt fjármunina inn á bankareikning annars manns og þannig stuðlað að því að halda við ólöglegum afleiðingum brotsins.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakakostnaðar. Af hálfu Fjölumboðsins er þess krafist að einn hinnar ákærðu verði dæmdur til að greiða rúmlega 740 þúsund með vöxtum.

-þev

Nýjast