Ráðist verði í stækkun flugstöðvar og flughlaðs á Akureyrarflugvelli

Stjórn Akureyrarstofu skorar á ferðamála- og samgönguyfirvöld á Íslandi að ráðast hið fyrsta í stækkun flugstöðvar og flughlaðs á Akureyrarflugvelli. Stjórnin vill benda á þrjár mikilvægar ástæður fyrir þessu:  

1) Mikilvægi flugvallarins á Akureyri sem varaflugvallar fyrir Ísland ætti nú að vera öllum ljóst vegna þeirrar röskunar sem orðið hefur á flugsamgöngum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Brýnt er að stækka flugstöðina og flughlaðið til að tryggja öryggi og afkastagetu mannvirkisins eins og frekast er kostur.

2) Ákaflega mikilvægt er að hefja svo fljótt sem kostur er beint millilandaflug á milli Evrópu og Akureyrar allt árið um kring. Stækkun flugstöðvarinnar og flughlaðsins myndi styðja mjög við slík áform. Fáar einstakar aðgerðir myndu efla ferðaþjónustu á svæðinu með sambærilegum hætti, álag á ferðamannasvæði á Íslandi myndi dreifast og leiða má líkur að því að heildarfjöldi ferðamanna til landsins aukist í fyllingu tímans.  Markaðssetning á Norðurlandi og opnun annarrar flughafnar inn í landið skiptir miklu máli til að tryggja stöðugleika í ferðaþjónustu og valmöguleika fyrir erlenda sem og innlenda gesti.

3) Stækkun flugstöðvarinnar og flughlaðsins er mikilvægt verkefni að ráðast í með hliðsjón af atvinnuleysi á Norðurlandi eystra og samdrætti í byggingarframkvæmdum. Í verkefninu færi saman arðbær aðgerð í þágu ferðaþjónstu og atvinnusköpun á erfiðum tímum.

Nýjast