Raðhús rísa í Grundargarði

Árni Grétar Árnason, framkvæmdastjóri Faktabygg á Íslandi. Mynd/epe
Árni Grétar Árnason, framkvæmdastjóri Faktabygg á Íslandi. Mynd/epe

Það er líflegt um að litast á Húsavík um þessar mundir þegar kemur að byggingaframkvæmdum. Nú hefur tekið að rísa myndarlegt raðhús í Grundargarði en það er Faktabygg sem byggir í samstarfi við Búfesti. Faktabygg í Noregi stofnaði árið 2018 dótturfélagið Faktabygg ehf. ásamt Árna Grétari Árnasyni sem er framkvæmdastjóri íslenska félagsins.

Hugmynd Búfesti og Faktabygg gengur í meginatriðum út á að yfirfæra snjalla hönnun og framleiðslutækni Faktabygg og norskra samstarfsaðila  yfir til Íslands  -  og nýta gæðakerfi fyrirtækisins til að skila gæðaíbúðum á viðráðanlegu verði til neytenda á Húsavík og almennt á starfssvæði félagsins.

Faktabygg Búfesti 2020

Blaðamaður Vikublaðsins kom við á byggingastað í Grundargarði og ræddi við Árna Grétar en um þessar mundir er gengi frá Noregi að vinna við að slá upp. Að sögn Árna Grétars er verið að reisa tvö raðhús, hvort með sex íbúðum. Reiknað er með tveimur vikum í reisa raðhúsin en um er að ræða einingahús sem smíðuð eru á verkstæði Faktabygg í Sandnes í Noregi. „Þetta kemur allt tilbúið og svo er þessu bara raðað saman hérna. Baðherbergin bíða t.d. tilbúin niður á höfn, flísalögð og klár,“ segir hann.

„Þetta er verkefni sem við erum búnir að vera vinna með Búfesti í tvö ár. Þessar lóðir voru lausar þannig að þeir fóru í það að sækja um þær frá sveitarfélaginu.“

Árni Grétar segir að íbúðirnar eigi að vera innflutningsklárar um næstu áramót en Búfesti hefur ekki auglýst þær lausar til umsóknar enn þá en þó hafi komið inn fyrirspurnir um þær.

Faktabygg Búfesti

 


Athugasemdir

Nýjast