Kristján segir að heldur hafi verið dregið úr frá upphaflegum áætlunum og er nú gert ráð fyrir að fyrsti áfangi samgöngumiðstöðvar í Reykjavík verði 3.500 fermetarar og kostnaður rúmur einn milljarður króna. "Ég hef jafnframt velt upp tveimur möguleikum á fundi með borgarstjóra, annnars vegar að byggt verði norðan við Loftleiðahótelið eins og ráð var fyrir gert og hins vegar að byggt verði á núverandi svæði Flugfélags Íslands, sem er ekki síðri kostur. Ég geri mér vonir um að þessi mál og fleiri mál tengd flugvellinum í Reykjavík skýrist frekar á allra næstu dögum."
Jafnframt segir Kristján að menn hafi horft til þess að nýta efnið úr Vaðlaheiðargöngunum við uppbyggingu flughlaða við flugvöllinn. "Þá hefur einnig verið tryggð fjárveiting til að ljúka framkvæmdum við lengingu Akureyrarflugvallar. Það var mikið lán að það tókst að hefja þessar framkvæmdir á síðasta ári, ég er hræddur um það hefði ekki fengist fjármagn til að hefja þær í ár."
Á þessu ári fara 21 milljarður króna í samgöngumál og verður þetta annað mesta framkvæmdaár sögunnar. "Við erum með í gangi verk fyrir 15 milljarða, við bjóðum út ný verk fyrir 6 milljarða en skorið var niður til málaflokksins um 6 milljarða. Engin verk hafa þó verið slegin af, heldur frestast af ýmsum ástæðum," segir Kristján. Vinna við Héðinsfjarðargöng er í fullum gangi, sem og vegagerð við Hófskarðsleið í Norður Þingeyjarsýslu. Þá hefur samgönguráðherra gefið út heimild til þess að Raufarhafnarleggurinn, sem er þriðji hluti Hófskarðsleiðar, verði boðinn út og er ráðgert að tilboð í verkið verði opnuð um miðjan næsta mánuð. Þá eru ýmis önnur smærri verk í gangi á svæðinu.