09. febrúar, 2009 - 13:00
Fréttir
Á fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi á laugardag, var samþykkt að halda
prófkjör laugardaginn 14. mars nk., þar sem kosið verður um sex efstu sæti listans. Þingmenn flokksins í kjördæminu ætla að taka
slaginn en Þorvaldur Ingvarsson framkvæmdastjóri lækninga á FSA, sem skipaði 4. sætið í síðustu kosningum hefur ekki tekið
ákvörðun um hvort hann tekur þátt í prófkjörinu.
Þorvaldur bauð sig fram í 1. sæti listans fyrir síðustu alþingiskosningar en laut í lægra haldi fyrir Kristjáni Þór
Júlíussyni, sem hyggst sækjast eftir því að leiða listann áfram. Þorvaldur sagðist vera að fara yfir sína stöðu en ef
hann fari fram muni hann sækjast eftir 2. sæti listans. Þingkonurnar Arnbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Norðdal, sem skipuðu 2. og 3. sæti listans
fyrir síðustu kosningar sækjast báðar eftir endurkjöri.